„Búið að útmá þessa ljótu reglu“

Hildur Sverrisdóttir kveðst glöð að breytingar á lögum um tæknifrjóvgun …
Hildur Sverrisdóttir kveðst glöð að breytingar á lögum um tæknifrjóvgun hafi verið samþykktar á Alþingi í dag. mbl.is/aðsent

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fagnar því að lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna hafi verið breytt og að það sé „búið að útmá þessa ljótu reglu“, segir hún í samtali við mbl.is.

Með lagabreytingunum má fólk nýta kynfrumur og fósturvísa eftir andlát eða skilnað maka, ef þau hafa veitt samþykki fyrir því. Fram til þessa kváðu lög á um að eyða bæri kynfrumum og fósturvísum ef annað hjóna eða sambúðarfólks félli frá og jafnframt ef sambúð eða óvígðum hjúskap yrði slitið, þó að samþykki beggja lægi fyrir.

Heldur baráttunni áfram

Hildur hefur í tvígang lagt fram frumvarp um tæknifrjóvgun og fagnar því að nýsamþykkt frumvarp taki að hluta á þeim efnisatriðum sem voru í hennar frumvarpi.

„Ég hef ekki farið leynt með það að ég hefði viljað ganga enn lengra og afmá kröfu um sambúðarform, heimila gjöf á fósturvísum og að láta þetta ná einnig yfir karlmenn en ekki bara konur,“ segir Hildur en að hún fagni því að hafa náð fram mikilvægum breytingum á málinu og hafi að öðru leyti ekki viljað standa í vegi fyrir þessum mikilvægu breytingum sem frumvarpið felur í sér. 

„Ég held þessari baráttu áfram þegar ég sný aftur á þing,“ segir Hildur en hún eignaðist lítinn dreng fyrr á árinu með aðstoð tæknifrjóvgunar. „Þetta var hans fyrsta ferð á þing, en ekki sú síðasta,“ segir hún kímin en mæðginin voru viðstödd samþykkt frumvarpsins fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert