Búist við mikilli aðsókn á tjaldsvæði landsins í sumar

Íslenskir ferðamenn elta jafnan veðrið en erlendir ekki.
Íslenskir ferðamenn elta jafnan veðrið en erlendir ekki. Ljósmynd/Ágúst Óli Ólafsson

Þess má vænta að mikið verði um að vera á tjaldsvæðum landsins í sumar. Ferðalangar geta komið sér vel fyrir á hinum ýmsu tjaldsvæðum en mikið hefur verið um að vera þar sem veðurblíðan hefur gert vart við sig.

Aðsókn hefur verið nokkuð góð miðað við árstíma en ferðalög Íslendinga innanlands eru að mestu leyti háð veðri, að sögn Ásgeirs Hreiðarssonar, framkvæmdastjóra hjá Hömrum á Akureyri. Ferðamönnum á svæðinu hefur fjölgað mikið frá seinasta sumri og reiknar Ásgeir með 20-30% fjölgun í ár.

Ásmundur Smári Ragnarsson, tjaldvörður í Vaglaskógi, býst við því að mikið verði að gera á meðan spáin sé góð. Að hans sögn helst þetta alltaf í hendur við veðrið en þó séu ávallt nokkrir sem hafa ákveðið að koma, sama hvernig viðrar.

Á Austurlandi virðist útlit fyrir þéttsetin tjaldsvæði og Heiður Vigfúsdóttir, sem rekur tjaldsvæðið á Egilsstöðum, ráðleggur öllum að bóka fljótlega því að haldist veðurspáin eins verði tjaldsvæðið nokkuð eftirsótt. Eru horfurnar eins annars staðar á Austurlandi en bæði tjaldsvæðið við Sandfellsskóg og Djúpavog eru næstum því fullbókuð út sumarið.

Straumur í Grundarfjörð

Blíðan hefur enn ekki látið sjá sig á Vesturlandi en það virðist þó ekki hafa áhrif á áform fólks sem streymir t.d. í Grundarfjörð. Kristín Haraldsdóttir, sem sér um tjaldsvæðið, segir að nóg sé að gera. Straumurinn nú í maí og byrjun júní jafnist á við júlíbyrjun. Segir hún erlenda ferðamenn ekki láta veðrið hafa áhrif á fyrirætlanir sínar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert