„Sú dagsetning er að renna upp núna,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, spurður um hvenær standi til að skipta um ráðherra í ríkisstjórn.
Jón Gunnarsson var settur dómsmálaráðherra þegar ný ríkisstjórn tók við í lok nóvember 2021. Átti hann að vera dómsmálaráðherra í 18 mánuði og þá átti Guðrún Hafsteinsdóttir að taka við.
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi skoraði á Bjarna að efna gefin loforð á stjórnarfundi á miðvikudaginn. Segja þau að tíminn sé runninn upp og rúmlega það.
„Það sem ég sagði við ríkisstjórnarmyndunina var að þegar eitt og hálft ár væri liðið af kjörtímabilinu sá ég fram á það að Guðrún Hafsteinsdóttir kæmi inn í ríkisstjórnina.
Núna er eitt og hálft ár liðið af kjörtímabilinu. Það tekur 18 mánuði að láta 18 mánuði líða. Hvers vegna eru 18 mánuðir svona lengi að líða? Ég veit það ekki, það er nú bara eins og það er,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.