Gatnamót endurgerð með öryggi gangandi og hjólandi í huga

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega …
Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega með aðskildum göngu- og hjólastígum og endurnýjaðri ljósastýringu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar verða endurgerð í júlí og aðliggjandi götur og gangstéttir þá aðlagaðar í leiðinni. Umferðarljós og gatnalýsing verða endurnýjuð ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg

Í tilkynningunni segir að aðgerðirnar snúist meðal annars um öryggisatriði gangandi og hjólandi vegfarenda á bæði gatnamótum og við gönguþverun yfir Háaleitisbraut. 

Til stóð að hefja framkvæmdirnar síðasta sumar en var þeim frestað. Þykir júlímánuður hentugastur vegna umferðarflæðis í gegnum gatnamótin á þeim tíma. 

Endurgerð gatnamótanna var gagnrýnd á síðasta ári og hún sögð þrengja að aðkomu að Landspítalanum í Fossvogi.

Í tilkynningunni frá borginni segir að loka þurfi fyrir umferð um Háaleitisbraut neðan Bústaðavegar á meðan hitaveitulagnir eru endurnýjaðar. Þá verði hjáleiðir um Áland og Eyrarland og/eða Fossvogsveg. 

Að öðru leyti verður opið fyrir umferð um svæðið. Aðkoma neyðarbíla að LSH Fossvogi verður greið allan framkvæmdatímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert