Sérfræðingur í loftgæðum segir viðbúið að mengun frá skógareldum í Kanada geti borist hingað til lands. Á nokkurra ára fresti berist hingað mengun sem bendir til að stafi frá skógareldum í Norður-Ameríku.
„Það getur gerst en það fer eftir því hvernig lægðirnar liggja,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.
Mengun frá skógareldum í Kanada hefur valdið afleitum loftgæðum í New York í Bandaríkjunum.
Spurður hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af skertum loftgæðum hér á landi svarar Þorsteinn neitandi.
„Við erum ekkert að fá neitt í líkingu við New York. Þessir eldar eru ekki langt frá New York, þannig að við erum ekki að fá neina svipaða styrki hér.
Ég myndi til dæmis halda að það yrði ekki gefin út viðvörun. Ég á ekki von á því, en það verður bara að koma í ljós hvaða styrkur mælist,“ segir hann og bætir við að fylgst sé vel með loftgæðum.
Þorsteinn segir það ekki að sjá að öskuagnir hafi mælst í loftinu vegna skógareldanna enn sem komið er.
Veðurfræðingur sagði við mbl.is í gær að engar agnir hefðu mælst vegna rigningarinnar, en möguleiki væri á að sjá eitthvað mistur þegar léttir til, ekki síst um helgina.
„Þessar fínu agnir frá skógareldum geta borist mjög langar leiðir og geta borist alveg yfir hafið. Það er alveg viðbúið að þær geti borist hingað miðað við það að ryk frá svona miklum skógareldum getur borist þúsundir kílómetra, en við yrðum alltaf í minni styrk hér,“ segir Þorsteinn.