Landsréttur lækkaði í dag fangelsisrefsingu í nauðgunarmáli gagnvart Faisal Mohed Freer úr þremur árum í tvö ár. Faisal hafði ruðst inn á salerni á skemmtistað og brotið kynferðislega á öðrum manni árið 2021.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Freer til að sæta þriggja ára fangelsi þann 29. apríl í fyrra en Landsréttur leit svo á að fullnægjandi sönnun lægi ekki fyrir um að Faisal hafi haft endaþarmsmök við brotaþola án samþykkis. Á þeim rökum lækkaði Landsréttur dóminn um eitt ár.
Faisal var ákærður þann tíunda janúar á síðasta ári og gefið að sök tilraun til nauðgunar í ágúst 2021. Hann hafði þá samkvæmt ákæru héraðssaksóknara ruðst inn á salerni inn á skemmtistað í Reykjavík þar sem maðurinn sem brotið var á var staddur. Þegar inn á salernið var komið dró Faisal niður buxur mannsins og reyndi að hafa við hann endaþarmsmök og munnmök án samþykkis.
Í ákærunni er tekið fram að stuttu síðar sama kvöld, á sama skemmtistað, hafi Faisal farið á eftir sama manni inn á salerni og þrýst honum upp að vegg og dregið niður um hann buxurnar. Í kjölfarið hafi hann reynt að hafa við hann endaþarmsmök án samþykkis en maðurinn sagðist ítrekað ekki vilja þetta og reynt að komast undan.
„Þegar brotaþola hafi tekist að snúa sér frá ákærða hafi ákærði tekið í hönd hans og þvingað hann niður á hnén og látið hann hafa við sig munnmök og ekki hætt þótt brotaþoli hafi ítrekað beðið hann um það. Þegar brotaþoli hafi loks náð að rífa sig frá ákærða hafi sá síðarnefndi fróað sér fyrir framan hann þar til brotaþoli náði að komast út af salerninu,“ segir í ákærunni.
Jafnframt var Faisal gefið að sök að hafa í fórum sínum grunnfalsað ökuskírteini og kennivottorð frá Belgíu með öðru nafni.
Faisal reyndi að bera fyrir sig að hann mundi ekki eftir atvikum umrædds kvölds vegna áfengisdrykkju en Landsréttur leit svo á að það væri ótrúverðugt.
„Þá er framburður hans um að hann hafi engan áhuga á karlmönnum ekki trúverðugur í ljósi þess sem ráða má af upptökum úr öryggismyndavélum og niðurstöðum rannsókna á lífsýnum sem tekin voru af getnaðarlim brotaþola og hálsi,“ sagði í niðurstöðukafla dómsins.
Þá leit Landsréttur til þess að bæði framburður brotaþola og vitna um að Faisal hafi þvingað brotaþola til munnmaka hafi frá upphafi verið stöðugur og var fallist á með héraðsdómi að hann væri trúverðugur.
Þá reifaði dómurinn að réttarlæknisfræðileg skoðun á brotaþola sem var framkvæmd í beinu framhaldi af brotinu hafi ekki leitt í ljós neina áverka eða ummerki á eða við endaþarm mannsins. Var því ekki fallist á að fullnægjandi sönnun væri til staðar um að Faisal hafi haft endaþarmsmök við brotaþola.
Var Faisal því sakfelldur fyrir þá háttsemi að þvinga manninn niður á hnén og látið hann hafa við sig munnmök en hann var sýknaður af tilraun til að hafa endaþarmsmök við manninn án samþykkis. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að hafa í fórum sér falsað ökuskírteini og kennivottorð enda lá skýlaus játning fyrir þeim hluta.
Landsréttur dæmdi því Faisal til að sæta fangelsi í tvö ár að frádregnu gæsluvarðhaldi sem stóð yfir í fjóra daga. Faisal var einnig dæmdur til að greiða manninum sem hann braut á tvær milljón krónur auk 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins ásamt sama hlutfalls málsvarnarlauna verjanda síns og þóknunar réttargæslumanns brotaþola.