„Lágkúran verður nú varla meiri“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, á Alþingi í dag í kjölfar þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, nafngreindi nokkra nefndarmenn nefndarinnar í ræðustól og sagði þá standa í vegi fyrir atkvæðagreiðslu Alþingis um framlengingu bráðabirgðarákvæðis um tollfrelsi landbúnaðarvara frá Úkraínu.
Þorgerður Katrín sagði stuðninginn vera táknrænan og hjálpi við að halda hjólum atvinnulífs Úkraínu gangandi. Hún sagði afstöðu utanríkisráðherra og forsætisráðherra og fleiri ráðherra um málið vera skýra um að málið ætti að fara til þingsins. Það væru því Steinunn Þóra Árnadóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Teitur Björn Einarsson sem kæmu í veg fyrir að málið færi í atkvæðagreiðslu Alþingis.
Guðrún sagðist halda að allir þingmenn væru sammála um að styðja við Úkraínu af öllum þeirra mætti. Það hafi legið ljóst fyrir að meirihluti væri ekki fyrir því að framlengja ákvæðið í nefndinni og sagðist hún telja málið hafa verið á forræði ríkisstjórnarinnar.
Þorgerður Katrín sagði þingmenn bera pólitíska ábyrgð og að þeir sitji á Alþingi undir sínum nöfnum og sem einstaklingar. Þeim beri því að þora að axla pólitíska ábyrgð.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði ástæðuna fyrir því að Alþingi hafi ekki fengið málið til meðferðar vera fjárhagslega. Hann segir fólk sjá það svart á hvítu hvað tollar á Íslandi hækka matvöruverð mikið. „Þessi áminning um kerfið okkar er það sem svíður mest undan,“ og segir það ástæðuna fyrir því að barist sé með kjafti og klóm gegn því sjálfsagða máli að haldið sé áfram þeim stuðningi við Úkraínu.
Guðrún spyr hvort eigi að ræða stuðning við Úkraínu eða tollamál á þinginu. Hún segir Sigmar beina athyglinni að því að málið snúist eingöngu um lækkun tolla en ekki að aðstoða fólk í neyð.
Hún sagðist ætla endurtaka þau orð sem hún lét falla í ræðupúlti Alþingis í síðustu viku: „Það getur ekki hafa verið vilji Alþingis Íslendinga þegar þetta var samþykkt á síðasta ári að þetta hefði afdrifaríkar afleiðingar á rekstrarafkomu bænda á Íslandi.“