Ólafur Ragnar brýnir mannskapinn

Ólafur Ragnar Grímsson flutti lokaávarp ársfundar Orkustofnunar
Ólafur Ragnar Grímsson flutti lokaávarp ársfundar Orkustofnunar Kristinn Magnússon

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, skerpti tímaskyn fundargesta á ársþingi Orkustofnunar í dag í þeim aðkallandi verkefnum sem fram undan eru í loftslagsmálum. Við eigum að vera komin á allt annan stað árið 2040, sem er ekki í órafjarlægð, heldur um það bil forsetatíð eins forseta lýðveldisins.

Ólafur Ragnar rifjaði upp þá tíð er hann hafi sem ungur þingmaður setið í stjórn Landsvirkjunar. Vandinn þá hafi ekki verið virkjunarmöguleikar heldur frekar að finna kaupendur að rafmagninu. Nú væri öldin önnur, keppst væri um hina grænu orku Íslendinga.

Orkulausnir eiga að vera þjóðarstolt

Íslendingar eiga ekki að vera raupsamir um árangur sinn í orkumálum heldur að átta sig á því hugviti og fordæmi sem þeir geta fært heiminum. Lagði hann það að jöfnu við því þjóðarstolti sem Íslendingar tengja fornbókmenntum sínum og handritum. Orkulausnum okkar eigum við að deila með öðrum, því að „við lifum ekki bara í þessu þorpi, við lifum í heiminum.“

Forsetinn fyrrverandi minntist á nýlegt hlutverk sitt í í alþjóðlegri ráðgjaf­ar­nefnd lofts­lagsþings Sam­einuðu þjóðanna, COP28, sem haldið verður í Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um í lok árs­ins. Öllum væri ljóst að tíminn væri að renna út, tíminn til aðgerða sé nú.

Hann hugsaði til orkuþarfar framtíðar. Fari svo að bráðnun Grænlandsjökuls hægi á Golfstrauminum og kólni á Íslandi, þá þurfi framtíðarkynslóðir enn meiri jarðvarma til húshitunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka