Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna Seðlabanka Íslands og íslenska ríkið af kröfum Arion banka um að fella úr gildi 87.000.000 kr. stjórnvaldssekt sem lögð var á bankann.
Sektin var lögð á Arion banka fyrir að hafa ekki birt eins fljótt og auðið var innherjaupplýsingar um fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir hjá bankanum í september árið 2019.
Fram kom í frétt Mannlífs á þessum tíma að samkvæmt heimildum vefmiðilsins yrði allt að 80 manns sagt upp störfum hjá Arion banka. Bankinn staðfesti uppsagnirnar ekki fyrr en nokkrum dögum síðar, eða 26. september 2019.
Fjármálaeftirlitið taldi þetta vera dæmi um innherjaupplýsingar sem gætu haft áhrif á verðmæti bankans.
Arion banki taldi sig ekki hafa borið skylda til að bregðast við frétt Mannlífs og birta innherjaupplýsingarnar sem bankinn hafði frestað birtingu á eftir að fréttin birtist. Bankinn sagði m.a. að innherjaupplýsingarnar sem hann frestaði birtingu á hafi ekki birst í frétt Mannlífs og að upplýsingarnar i fréttinni hafi því ekki beinlínis tengst innherjaupplýsingum.
Fjármálaeftirlitið sagðist ekki draga í efa að ákvörðun Arion banka um að fresta birtingu á innherjaupplýsingum í upphafi hafi verið í samræmi við lög. Á bankanum hafi hins vegar hvílt rík lagaskylda til að tryggja trúnað um innherjaupplýsingarnar þegar hann nýtti undantekninguna og þegar skilyrði frestunar voru ekki lengur fyrir hendi. Þá hafi honum borið að birta upplýsingarnar eins fljótt og auðið var.
Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að hafna kröfu Arion banka. Sú ákvörðun að fresta birtingu innherjaupplýsinga í rúma þrjá sólarhringa hafi því verið í andstæðu við lög, vegna þess að tilkynningarskylda bankans hafi verið virk um leið og innherjaupplýsingarnar birtust 22. september.
Þá ber Arion banka að greiða Seðlabankanum og ríkinu málskostnað fyrir Landsrétti, samtals 1.000.000 kr.