Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra segir að framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ sé ástæðan fyrir því að hlutfallslega flestar íbúðir hafi verið teknar á leigu af Vinnumálastofnun í því sveitarfélagi en öðrum sveitarfélögum fyrir fólk sem sótt hefur um alþjóðlega vernd. Hann segir augljóst að dreifa þurfi fólkinu á fleiri sveitarfélög og draga úr fjöldanum í Reykjanesbæ.
Sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ segir að bærinn viti ekki fyrir fram af því áður en Vinnumálastofnun tekur íbúðir á leigu.
Af hverju hafa svona margar íbúðir verið teknar á leigu í Reykjanesbæ?
„Það hefur hefur minna framboð á íbúðum annars staðar á landinu en í Reykjanesbæ og þá sérstaklega Ásbrú sem er meginástæðan fyrir því að Vinnumálastofnun hefur tekið hlutfallslega fleiri íbúðir þar á leigu,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ, segir að aðkoma sveitarfélagsins sé lítil sem engin. „Sveitarfélagið kemur ekki beint að þessu. Við fáum bara beiðni um strætókort og þannig vitum við að íbúðir hafi verið teknar á leigu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ef ég man rétt þá eru þetta um 1.100 kort sem við höfum afhent.“
Guðmundur segir að verið sé að vinna í aðgerðaráætlun um það hvernig hægt sé að styðja frekar við umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ.
„Við erum að vinna að aðgerðaráætlun sem gengur út á það að vinnumálastofnun geti aðstoðað bæinn við að sjá um þennan mikla fjölda sem þarna er. Bæta innviðina, þjónustuna og virknina.“
Hann segir þó markmiðið vera að draga úr fjöldanum í Reykjanesbæ.
„Við erum að skoða hvenær við getum farið að draga úr fjöldanum af fólki sem er þarna í bænum. Það er algjörlega markmiðið.“
Hann bætir við að hlúa þurfi vel að fólki og auka stuðning við sveitarfélagið. „Við erum í samtali við sveitarfélagið um aðgerðir til að auka virkniúrræði fyrir fólk og auka þjónustu þannig það létti álaginu á mismunandi stöðum í bænum.“