Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi skorar á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að efna gefin loforð um að gera Guðrúnu Hafsteinsdóttur að dómsmálaráðherra.
Ráðið sendi áskorunina frá sér á stjórnarfundi á miðvikudag.
Í áskoruninni segir að samkvæmt ýtrustu túlkun á hinum svokölluðu „12 til 18 mánuðum“ þá sé tíminn runninn upp og rúmlega það. Þar segir enn fremur að Suðurkjördæmi hafi verið eina landsbyggðarkjördæmið þar sem Sjálfstæðisflokkur hlaut 1. mann kjörin.
„Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi gengu af síðasta landsfundi fullvissir um að Guðrún Hafsteinsdóttir yrði ráðherra snemma á vormánuðum 2023. Núna er kominn tími á að leggja orð í efndir. Það er algjör lágmarkskrafa um að hún taki sæti í ríkisstjórn við lok þingvetrar,“ segir í tilkynningunni.
Jón Gunnarsson var settur dómsmálaráðherra þegar ný ríkisstjórn tók við í lok nóvember 2021. Átti hann að vera dómsmálaráðherra í 18 mánuði og þá átti Guðrún að taka við.