Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs Birgissonar, annars sakborninga í hryðjuverkamálinu svokallaða, telur að ekkert í nýrri hryðjuverkaákæru héraðssaksóknara gefi ástæðu til að ætla annað en að sömu sjónarmið séu uppi og leiddu til frávísunar málsins á sínum tíma.
„Ákæran er talsvert ítarlegri en sú fyrri. En ég er þeirrar skoðunar að staðan sé að öðru leyti óbreytt. Þau sjónarmið sem leiddu til frávísunar á sínum tíma eiga ennþá við. Svo verður að koma í ljós hvort ég hafi rétt fyrir mér,“ segir Sveinn Andri.
Hann telur að enn vanti veigamikla þætti í ákæruna. „Það vantar enn að útlista hvenær, hvar og hvernig áformuð „hryðjuverkaárás“ átti að eiga sér stað. Þetta vantar ennþá í ákæruna,“ segir Sveinn Andri.
Málinu var vísað frá á sínum tíma vegna óskýrleika ákærunnar. Var sagt að þessir hlutir kæmu ekki fram í ákærunni.
„Það verður tekið til fullra varna nú sem áður,“ segir Sveinn Andri.