Héraðssaksóknari hefur gefið út nýjar ákærur á hendur Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni í hryðjuverkamálinu svokallaða. Ákærurnar verða birtar mönnunum við þingfestingu þeirra á mánudag.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir þetta í samtali við mbl.is í dag.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segist vera viss um að nýju ákærurnar falli betur að kröfum dómsvaldsins.
„Já já, við fengum ákveðnar leiðbeiningar frá Landsrétti og erum að reyna að fylgja þeim.“
Héraðsdómur vísaði hryðjuverkahluta málsins frá í febrúar vegna vegna óskýrs orðalags í ákæru. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í mars en klofnaði í afstöðu sinni.
Í úrskurði sínum sagði Landsréttur að ákæruvaldið hefði þurft að tilgreina mun skýrar og nákvæmar í ákærunum hvaða orðfæri og yfirlýsingar í samskiptum þeirra Sindra Snæs og Ísidórs það teldi sýna að Sindri hefði tekið ákvörðun um að fremja hryðjuverk.
Þá var talið að ákæruvaldið hefði ekki gert grein fyrir undirbúningsathöfnum Sindra með viðhlítandi hætti og hvernig þær tengdust því að hann hefði ætlað sér að fremja hryðjuverk. Þannig hefði hlutdeild Ísidórs ekki heldur verið lýst og þá hefði vantað lýsingu eða útlistun á hvatningu hans og undirróðri gagnvart fyrirætlunum Sindra.
Fyrirtöku í vopnalagahluta málsins var frestað í liðnum mánuði meðal annars vegna þess að ákvörðun hafði ekki verið tekin um að gefa út nýjar ákærur í hryðjuverkahluta málsins. Segir Karl Ingi að nú verði málin tvö sameinuð á ný.
„Vopnalagahlutinn stóð eftir og við ætluðum að hittast á mánudag vegna þess. Svo fór ákæran inn í dóminn í vikunni og hún fær nýtt málsnúmer. Það mál er svo sameinað þessu máli sem varðar vopnalagahlutann og þetta verður rekið sem eitt mál,“ segir Karl.