Eldur kviknaði í bifreiðaverkstæði á Esjumelum

Horft yfir Mosfellsbæ, Álfsnes og Esjumela.
Horft yfir Mosfellsbæ, Álfsnes og Esjumela.

Slökkviliðið var kallað til og þrír slökkviliðsbílar sendir af stað vegna elds sem kviknaði í iðnaðarhúsnæði á Esjumelum í Reykjavík á ellefta tímanum í kvöld.

Um er að ræða bifreiðaverkstæði. Eldur hafði kviknað innandyra en slökkviliðið hefur nú þegar náð að slökkva eldinn og er nú að reykræsta rýmið. 

Eldsupptökin eru óþekkt en að sögn Bjarna Magnússonar, varðstjóra Slökkviliðsins á höfiuðborgarsvæðinu er ekki vitað til þess að nokkur hafi verið inni í húsinu. 

Mikill reykur og hiti er þó enn í húsinu og því getur verið vandasamt að reykræsta það. Bjarni gerir þó ráð fyrir að því verki verði lokið fyrir miðnætti. 

Hann telur ljóst að einhverjar skemmdir hafi orðið við eldinn, en getur ekki metið umfang þeirra enn sem komið er. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert