Siglingar ferjunnar Sæfara milli Grímseyjar og Dalvíkur hófust á ný sl. miðvikudag og voru um 50 farþegar um borð í þeirri ferð. Siglt verður í sumar fimm ferðir á viku milli lands og eyjar. Sæfari hefur verið í slipp á Akureyri síðan í mars en ferjan fór í mun ítarlegri skoðun en hin hefðbundna árlega skoðun er, enda er hún orðin rúmlega 30 ára gömul. Sú vinna dróst þó á langinn af ýmsum ástæðum.
Þetta hafði þó nokkur áhrif á daglegt líf Grímseyinga sem þurftu sjálfir að annast afurða- og vöruflutninga til og frá eyjunni með fiskiskipinu Þorleifi
„Við erum bara mjög ánægð með það að ferjan sé komin aftur, en það er svolítið leiðinlegt hvað þetta tók langan tíma, því þetta var auðvitað smá áfall fyrir ferðaþjónustuna hér,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir í Grímsey, umboðsmaður Norlandair. Þá segir hún að til að mynda hafi pantanir á gistiheimilum dottið út vegna takmarkaðra samgangna. Á meðan ferjan var í slipp var farþegaflutningum sinnt með áætlunarflugi á vegum Norlandair, en flugferðum frá og með eyjunni var fjölgað úr þremur í fjórar á viku.
Ragnhildur segir íbúa í Grímsey þó umfram allt bjartsýna á sumarið fram undan, enda oft gott veður á eyjunni yfir sumartímann og stefnir allt í mikinn blóma í ferðaþjónustunni. Grímseyingar hefðu þó óskað eftir öðruvísi lausn á þessum vanda; „Þetta leystist auðvitað allt saman á endanum, en það hefði samt verið gaman að fá nýja ferju í stað þess að gera bara við hina eldri, enda er svolítið farið að sjá á henni.“
Vegagerðin tók við rekstri Sæfara hinn 1. júní, en Samskip hafa rekið Sæfara undanfarin ár. Samningurinn við Samskip rann út 31. mars síðastliðinn og stóð til að bjóða verkið út, en Samskip gat ekki siglt í allt sumar og var útboðið því afturkallað vegna of skamms tímaramma. Það þótti mikilvægt að sama áhöfn sigldi Sæfara áfram og því gerði Vegagerðin samning við áhöfnina til áramóta. Ragnhildur segir að breytingin hafi ekki verið áberandi hingað til, en vonast til þess að samstarfið gangi eins vel og það gerði við Samskip: „Mér skilst að það sé mun auðveldara að bóka sig í ferjuna núna, en við verðum bara að bíða og sjá hvernig þetta fer í sumar.“