Veltan af veitingasölu og -þjónustu nam 146 milljörðum króna í fyrra. Það er mesta velta frá upphafi og 45% aukning frá árinu 2015. Þá veltu gististaðir 130,6 milljörðum sem er 2,3 milljörðum minna en metárið 2018.
Tölurnar eru sóttar í veltu á hverju tveggja mánaða virðisaukaskattstímabili og eru núvirtar með því að nota meðaltal vísitölu neysluverðs á tímabilinu.
Byrjun þessa árs bendir til að það verði metár í báðum flokkum. Veitingasalan velti 20,6 milljörðum á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs eða tæpum þremur milljörðum meira en fyrra metárið 2018.
Þá var velta gististaðanna 15,2 milljarðar fyrstu tvo mánuði þessa árs og því meiri en fyrra metárið 2018.
Gististaðir urðu fyrir miklu höggi í farsóttinni en eftir hana voru ný hótel opnuð. Með því jókst framboðið sem nú skilar sér í meiri veltu.
Þá bendir flest til að framboðið hafi aukist í veitingaþjónustu. Þar með talið með tveimur nýjum mathöllum í miðborginni.
Vöxtur þessara greina birtist í eftirspurn eftir starfsfólki. Vignir Ö. Hafþórsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir þessar greinar þurfa fleira starfsfólk í sumar.
„Það kæmi mér ekki á óvart ef það bættust við 1.200 störf á öðrum ársfjórðungi og að þá verði um 2.000 störf laus í einkennandi greinum ferðaþjónustu,“ segir Vignir.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.