Saka Þorgerði Katrínu um rógburð

Samtök fyrirtækja í landbúnaði saka formann Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur …
Samtök fyrirtækja í landbúnaði saka formann Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um rógburð úr pontu Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök fyrirtækja í landbúnaði krefjast afsökunarbeiðni frá formanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, vegna orða hennar sem gáfu í skyn að að samtökin styddu ekki við Úkraínumenn í baráttu þeirra gegn innrás Rússlands.

Þorgerður nafngreindi nokkra nefndarmenn úr efnahags- og viðskiptaefnd í ræðustól, og sagði þá standa í vegi fyr­ir at­kvæðagreiðslu Alþing­is um fram­leng­ingu bráðabirgðar­á­kvæðis um toll­frelsi land­búnaðar­vara frá Úkraínu.

Sagði hún þó helsta þrýstingin koma frá Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, og hélt því fram að það væri sérstaklega bagalegt í ljósi þess að formaður samtakanna væri heiðursræðismaður Rússa á Íslandi. 

Fara fram á afsökunarbeiðni

Í tilkynningu frá samtökunum er Þorgerður sökuð um rógburð og sögð hafa ranglega haldið því fram að formaður samtakanna væri heiðursræðismaður Rússa á Íslandi.

Samtökin segjast „harma rógburð alþingismannsins úr pontu Alþingis Íslendinga. Formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði er ekki og hefur aldrei verið heiðursræðismaður Rússa á Íslandi né borið nokkurn annan titil sem nokkurs konar opinber tengiliður við Rússland. Fara samtökin fram á formlega afsökunarbeiðni þingmannsins enda ljóst að um tilhæfulausa árás á samtökin er að ræða.“

Segja samtökin einungis hafa lagst gegn tillögu um niðurfellingu tollsins þar sem ljóst væri að ákvörðunin myndi einungis hafa áhrif á landbúnaðarvörur þar sem tollar á aðrar vörur höfðu áður verið felldir niður.

„Þannig hefur þessi tiltekni stuðningur einungis verið greiddur af einni starfsstétt á Íslandi – íslenskum bændum.“

Segir í tilkynningunni að samtökin hafi bent á að vænlegra væri fyrir Ísland að fylgja fordæmi Noregs og styrkja Úkraínu með fjárframlögum, ekki með því að fella niður tolla á vörur frá landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert