Segir aðgerðirnar „stórmál“

Bjarni Benediktsson segir allt of mikið hafa verið gert úr …
Bjarni Benediktsson segir allt of mikið hafa verið gert úr því að það skorti aðhaldsstig í ríkisfjármálin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, seg­ir aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að bæta við þúsund íbúðum fé­lags­legs hús­næðis vera stór­mál í sín­um huga. Áskor­an­ir í jöfnuði rík­is­fjár­mála komi víða frá, þar á meðal vegna flótta­manna­vand­ans. 

„Ég skil ekki af hverju fólk ger­ir lítið úr því að við bæt­um við þúsund íbúðum á fram­boðshlið fé­lags­legs hús­næðis, það er stór­mál í mín­um huga,“ seg­ir Bjarni í sam­tali við mbl.is um gagn­rýni á aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar gegn verðbólgu og hækk­un vaxta.

Hann seg­ir allt of mikið hafa verið gert úr því að það skorti aðhalds­stig í rík­is­fjár­mál­in.

„Síðast var Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn að leggja mat á árið 2023 og sagði aðhalds­stigið hæfi­legt miðað við stöðuna í hag­kerf­inu. Þó að sum­ir hafi mjög hátt um það að aðhaldið sé ekk­ert, þá er það alrangt. Það birt­ist að sjálf­sögðu í stór­bættri af­komu rík­is­sjóðs sem hef­ur á frum­jöfnuði batnað um vel rúm­lega 200 millj­arða á tveim­ur árum,“ seg­ir Bjarni.

Hálft pró­sent af lands­fram­leiðslu

„Við höf­um metið það þannig, til dæm­is á næsta ári, þá séu aðhalds­stig rík­is­fjár­mál­anna að minnsta kosti hálft pró­sent af lands­fram­leiðslu,“ seg­ir Bjarni.

Hann seg­ir máli skipta hvernig sé beitt sér í rík­is­fjár­mál­um og tel­ur það hafa verið góð ráðstöf­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar að boða það að setja auk­inn kraft í fram­boðshliðina á hús­næðismarkaðnum.

„Það er svona um það bil magn sem við treyst­um okk­ur að styðja við upp­bygg­ingu og ekki mikið meira,“ seg­ir Bjarni.

„Við get­um skapað svig­rúm fyr­ir fjár­mögn­un þess­ara aðgerða inn­an fjár­mála­áætl­un­ar­inn­ar.“

Leggja tón­inn fyr­ir næstu kjaralotu

Bjarni tel­ur veru­legu máli skipta þegar feng­ist er við verðbólg­una að gera sér grein fyr­ir því að vext­ir dags­ins í dag á lang­tíma skuld­bind­ing­um byggi ekki bara á því hvernig verðbólg­an hef­ur þró­ast síðustu 12 mánuði, held­ur miklu meira á því hverju fólk trú­ir um framtíðina.

„Við erum með þess­um nýj­ustu aðgerðum okk­ar að fara inn í kjaraþróun æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem að legg­ur ákveðinn tón. Það skipt­ir máli varðandi upp­takt­inn á næstu kjaralotu,“ seg­ir Bjarni.

Hann seg­ir heild­aráhrif­in af aðgerðunum ann­ars veg­ar vera bein fyr­ir rík­is­fjár­mál­in, til dæm­is hvað snert­ir fram­boð á fé­lags­legu hús­næði, og séu þannig mæl­an­leg.

„Síðan eru þau líka óbein og geta haft áhrif, ásamt öðru sem er að ger­ast, á vænt­ing­ar á verðbólgu til framtíðar, og það er það sem við erum að fást við,“ seg­ir fjár­málaráðherra.

Kostnaður við um­sókn­ir marg­fald­ast

Bjarni seg­ir rík­is­stjórn­ina standa frammi fyr­ir ýms­um áskor­un­um sem þau hafa fengið í fangið.

„Það set­ur strik í reikn­ing­inn í fjár­mál­um rík­is­sjóðs þegar flótta­manna­vand­inn skell­ur á okk­ur, ekki bara vegna Úkraínu­stríðsins held­ur víða ann­ars staðar frá. Það hef­ur tekið Alþingi allt of lang­an tíma að bregðast við með breyt­ingu á lög­um og regl­um,“ seg­ir Bjarni.

Hann seg­ir að dóms­mál­ráðherr­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafi ár eft­ir ár lagt fyr­ir þingið til­lög­ur um að bregðast við vand­an­um en það hafi ekki verið fyrr en á þessu ári sem fyrstu breyt­ing­arn­ar feng­ust í gegn á þing­inu.

„Í millitíðinni hef­ur kostnaður rík­is­sjóðs vegna stjórn­sýl­unn­ar við að taka á móti og af­greiða um­sókn­ir um vernd á ís­landi vaxið upp úr öllu valdi. Mér sýn­ist að heild­ar­kostnaður okk­ar sé orðinn meiri en 15 millj­arðar á ári. Þetta eru mjög stór­ar fjár­hæðir. Þetta eru fjár­hæðir sem voru inn­an við millj­arður þegar ég byrjaði í ráðuneyt­inu,“ seg­ir Bjarni.

„Það eru líka slík­ar áskor­an­ir sem við erum að fást við sam­hliða því sem við erum að reyna að ná jöfnuði í rík­is­fjár­mál­um.“ 

Óeðli­lega mik­il arðsemi

Í nýrri grein­ingu Sam­taka iðnaðar­ins kem­ur fram að út­lit sé fyr­ir að á næstu þrem­ur árum verði full­kláraðar íbúðir sem fari á markað 4.360 færri en áætluð þörf sem er á hús­næðismarkaði. Þetta muni skapa til­heyr­andi ójafn­vægi á milli fjölda full­bú­inna íbúða og áætlaðrar þarfar

„Mér finnst Sam­tök iðnaðar­ins hafa gert of lítið úr því hversu mik­il arðsemi hef­ur verið af bygg­ingu íbúðar­hús­næðis á und­an­förn­um árum. Það hef­ur verið óeðli­lega mik­il arðsemi af bygg­ingu íbúðar­hús­næðis,“ seg­ir Bjarni.

Hann seg­ir þessa sögu­legu arðsemi eiga eina og sér að vera hvati fyr­ir verk­taka til þess að byggja meira íbúðar­hús­næði. Hins veg­ar dragi nú eitt­hvað úr þess­ari arðsemi vegna hækk­andi vaxta.

„Þegar þú spyrð mig, munu hærri vext­ir hafa áhrif á vilja verk­taka til þess að fara í fram­kvæmd­ir, að sjálf­sögðu munu þeir gera það. Það er eng­in spurn­ing að fram­kvæmd­ir verða dýr­ari við allt annað vaxta­stig held­ur en var hér fyr­ir skömmu síðan, það ligg­ur í aug­um uppi,“ seg­ir Bjarni.

Rík­is­stjórn­in stýri þó ekki lóðafram­boði.

Of mik­il áhersla á þétt­ingu byggðar

Bjarni seg­ir Sig­urð Inga Jó­hanns­son innviðaráðherra hafa gert sitt til þess að leggja mat á heild­ar fram­boð lóða til bygg­ing­ar á íbúðar­hús­næði.

Þá hafi Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un stór­bætt töl­fræðilega grein­ingu á því fram­boði.

„Það er mik­il­vægt að innviðaráðherra hef­ur náð að gera samn­inga við sveit­ar­fé­lög­in þar sem þau lofa að tryggja fram­boðið.

En það veld­ur mér áhyggj­um að til dæm­is á höfuðborg­ar­svæðinu virðist hafa verið of lítið fram­boð til þess að byggja hag­kvæm­ar íbúðir og meiri áhersla verið lögð á að vinna að þétt­ingu byggðar á dýr­um reit­um sem skila sér í dýr­um íbúðum,“ seg­ir Bjarni.

Ekki all­ir þræðir í hendi rík­is­ins

Tel­ur þú að skort­ur á íbúðar­hús­næði muni auka verðbólgu enn frek­ar? 

„Á und­an­förn­um árum myndaðist af ýms­um ástæðum mis­gengi á milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. Eft­ir­spurn­in var gríðarleg vegna fólks­fjölg­un­ar, líka vegna mjög lágs vaxta­stigs og mik­illa kaup­hækk­ana. Kaup­geta fólks stór­jókst.

Það hafði byggst upp mik­ill skort­ur á íbúðum á ár­un­um eft­ir fjár­mála­hrunið sem tók lang­an tíma að vinna niður. Þetta er eitt­hvað sem við höf­um séð ger­ast í fortíðinni,“ seg­ir Bjarni.

Ramma­samn­ing­ar innviðaráðuneyt­is við sveit­ar­fé­lög­in og töl­fræðivinn­an sem er verið að vinna hjá hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un seg­ir Bjarni að sé til þess hugsuð að und­ir­búa ákv­arðana­töku inn í framtíðina til að lenda ekki aft­ur í sam­bæri­legu mis­gengi.

En við erum ekki með alla þræði máls­ins í hendi okk­ar. Við erum að byggja hús­næðismarkaðinn á Íslandi að veru­legu leyti á markaðslög­mál­um. Ég sé ekki annað en það hafi verið gripið til ráðstaf­anna sem ættu að vera nægj­an­leg­ar til þess að stuðla að því að upp­bygg­ing íbúða eigi sér stað,“ seg­ir Bjarni.

„Ég get auðvitað ekki svarað því mörg ár fram í tím­ann hvað ná­kvæm­lega ger­ist. Hvort það verði meiri eft­ir­spurn eða minni en fram­boð bíður upp á. Það sem ég veit hins veg­ar er að við höf­um í dag miklu betri grein­inga­getu og ramma­samn­ing­ar innviðaráðherra við sveit­ar­fé­lög­in eru til þess hugsaði að tryggja að þau skili sínu. Síðan verða þeir sem eru í þeirri starf­semi að byggja íbúðir að taka sín­ar ákv­arðanir, við tök­um þær ekki fyr­ir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert