Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir nóttina hafa verið langa í Karphúsinu, en samningar á milli BSRB og samninganefnd sambandsins (SNS) náðust snemma í morgun. Fundað var í um það bil 21 klukkustund.
„Það er einhver miðsumarsorka í fólki,“ segir Heiða kímin í samtali við mbl.is.
„Fólk bara sat við og í rauninni held ég að þegar deilan er orðin svona löng þá er það bara það eina sem virkar.
Hún segir deiluna vissulega hafa verið langa og erfiða og alltaf megi búast við því að ganga að einhverju leyti ósáttur frá borði í kjaradeilum.
„Það fara báðir jafnsáttir og ósáttir frá borði,“ segir Heiða og bætir við:
„Auðvitað hefðum við viljað að eitthvað hefði farið öðruvísi en við lögðum mesta áherslu á að hækka lægstu launin og það náðist. Þessi samningur er bara í góðum takti við aðra samninga sem við höfum verið að gera.
Ég hef sagt allan tímann að báðir aðilar þurfa að vera tilbúnir að vera ekki alveg sáttir við niðurstöðuna.“
Hún segir það hafa verið mjög erfitt að deila svo lengi við eigið starfsfólk og fulltrúa þeirra og því sé sambandið mjög fegið yfir því að samningar hafi náðst.
„Það er í raun stóra málið og maður verður bara að setja hitt á bakvið sig.“
Hún segir tillögu um sáttargreiðslu hafa komið frá ríkissáttasemjara í nótt og að sambandið hafi samþykkt hana til þess að ljúka deilunni.
„Svo að fólk geti mætt aftur í vinnuna og við getum haldið áfram að byggja upp góð sveitarfélög með þeirri þjónustu sem fólkið okkar á rétt á og bíður eftir.“
Sáttagreiðslan sem fallist var á nemur 105.000 krónum, en undir lok deilunnar stóð aðeins eitt atriði í vegi fyrir því að samningar næðust sem var ákvæði um eingreiðslu til félagsfólks BSRB að fjárhæð 128.000 krónur.
Aðspurð segir Heiða sáttagreiðsluna ekki tengjast kjarasamningsgerðinni með beinum hætti, heldur sé vanalegt að samið sé um einhvers konar sáttargreiðslu í deilum sem ganga svo langt. Sátt hafi því náðst um að hverfa burt frá deilunni um eingreiðsluna með því að semja um sáttagreiðslu.
Spurð hvað hafi orðið til þess að sáttir náðust loksins í nótt eftir lítinn árangur í vikunni, svarar Heiða:
„Það bara kom þetta móment sem þarf alltaf að koma þegar fólk deilir.“
Ríkissáttasemjari hafi komið með tillöguna sem að lokum var samþykkt. „Þegar deilur eru komnar svona langt þá þarf aðstoð við að leysa þær.“
„Við erum bara gríðarlega ánægð með að það hafi náðst að ljúka þessari deilu og verkföllum, sem voru auðvitað farin að taka verulega á. Bæði hjá okkur hjá sveitarfélögunum og starfsfólkinu okkar, en ekki síst íbúana sem að hafa auðvitað liðið fyrir það að fá ekki þá þjónustu sem þau eiga rétt á og þurfa á að halda.“