Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti þrjá á Landspítalann vegna tveggja aðskilinna vélhjólaslysa,. Annað slysið varð klukkan 15 við Búðarháls en hitt varð klukkan 15:45 við Flúðir.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, var þyrlusveitin á æfingu skammt frá þegar útkall barst vegna vélhjólaslyss á Búðarhálsi.
Tveir slösuðust, annar meira en hinn, en þyrlan var fljót á staðinn.
Þremur korterum seinna barst annað útkall vegna annars vélhjólaslyss, sem átti sér stað á Flúðum. Þar hafði einn slasast og þyrlan, sem var nú þegar að flytja tvo slasaða ökumenn á Landspítala, lenti og tók þann þriðja upp í þyrluna. Voru þeir svo allir þrír fluttir á Landspítala til aðhlynningar.
Ásgeir kveðst ekki hafa nánari upplýsingar um líðan mannanna.