Umfangsmikill árekstur á Suðurlandsvegi

Að sögn Garðars Más Garðarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, …
Að sögn Garðars Más Garðarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, er aðgerðum á svæðinu lokið og ætti umferðin því að vera orðin söm við sig. mbl.is/Þorsteinn

Loka þurfti fyrir umferð um Suðurlandsveg síðdegis í dag, og beina ökumönnum um hjáleiðir, vegna umfangsmikilla umferðaróhappa.

Að sögn Garðars Más Garðarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, er aðgerðum á svæðinu lokið og ætti umferðin því að vera orðin söm við sig. 

Talið var að um fimm bíla árekstur hafi verið að ræða, en við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða árekstur annars vegar tveggja bifreiða og hins vegar þriggja bifreiða á nánast sama stað. „Þetta voru eiginlega tvö aðskilin atvik.“ 

Fimm voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar, en þar af var einungis einn með teljandi meiðsli að sögn Garðars. 

Sprungið dekk og torfærukeppni

Lögreglan á Suðurlandi hefur haft í nógu að snúast í dag, en komst þó af án þess að kalla út auka mannskap.

Til viðbótar við þennan umfangsmikla árekstur, höfðu skömmu áður orðið tvö vélhjólaslys sem mbl.is greindi frá fyrr í dag. 

Annað þeirra átti sér stað klukk­an 15 við Búðar­háls en hitt varð klukk­an 15:45 við Flúðir. 

Það fyrra varð þegar tveir vélhjólakappar skullu saman eftir að það hafði sprungið á dekki hjá öðrum þeirra og hann búið sig til þess að stöðva hjólið. Hið seinna varð við torfæruaksturskeppni þar sem vélhjólakappi datt af hjóli sínu. 

Garðar segist ekki hafa upplýsingar um stig meiðsla hjá köppunum sem voru allir fluttir með sjúkraflugi í bæinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert