Karlotta Líf Sumarliðadóttir
„Þetta eru jákvæðar fréttir. Nú geta börnin farið að mæta í leikskólana á ný og starfsfólkið auðvitað mætt til vinnu, þannig að við fögnum þessu að sjálfsögðu,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, í samtali við mbl.is.
Nýr kjarasamningur var undirritaður milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun og hefur verkfallsaðgerðum 2.500 félagsmanna BSRB í 30 sveitarfélögum því verið aflýst.
Verkföllin höfðu víðtæk áhrif á starfsemi Kópavogsbæjar, þá helst á leikskóla og sundlaugar bæjarins, sem og starfsemi ráðhússins.
Spurð hvort tíðindin hafi komið á óvart, svarar Ásdís játandi.
„Vegna þess að mér fannst eins og deilan væri komin í algjöran hnút í vikunni þannig að þetta kom mér skemmtilega á óvart. Þetta er mjög jákvætt og skiptir máli.“
Bæjarstjórar Akureyrar og Mosfellsbæjar lýstu fyrr í dag yfir ánægju með að samningar hefðu náðst.