Unnið er að sameiningu Landgræðslu og Skógræktar Íslands, sem til stendur að nefna Land og skóg, en Birgir Þórarinsson þingmaður lagði til, og dró svo til baka, að því heiti yrði breytt í Folda.
Mikill samhugur ríkti meðal þingmanna á fundi Alþingis í gær þegar tekið var fyrir frumvarp um sameiningu Landgræðslu og Skógræktar Íslands í eina stofnun. Var frumvarpið að sameiningu stofnananna samþykkt og í ræðum þingmanna mátti greina tilhlökkun til framfylgni málsins.
Ekki gilti hið sama um breytingartillögu Birgis Þórarinssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, við frumvarpinu. Birgir lagði til að sameiginlega stofnunin myndi ekki heita Land og skógur, eins og til hafði staðið, heldur Folda. Var tillagan byggð á þeim rökum að stofnunum ríkisins ættu að vera valin heiti sem í senn væru þjál og lýsandi fyrir starfsemi þeirra. Væri því vel við hæfi að velja stofnuninni heitið Folda, enda fela markmið starfseminnar að græða íslenska fold í þágu landverndar og komandi kynslóða.
Naut breytingartillaga Birgis ekki mikilla vinsælda þingi. Er þá meðal annars haft upp úr ræðu Líneikur Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins:
„Orðið fold merkir jörð eða land og Folda er kvenkynsnafn dregið af orðinu. Þar með væri búið að ýta tilvísun til gróðurs úr nafni stofnunarinnar og dregið úr gagnsæi nafnsins.“
Dró Birgir tillögu sína til baka í miðjum ræðuhöldum um málið og mun því stofnunin ekki heita Folda.