Fann ástina í gamalli rafstöð

Barbara Grilz vissi að hún yrði að flytja til Íslands …
Barbara Grilz vissi að hún yrði að flytja til Íslands eftir ferðalag hingað. Hún lét þann draum rætast og býr nú á Fáskrúðsfirði. mbl.is/Ásdís

​Í hitabylgju á Austurlandi í maí, nú eða að minnsta kosti í sól og fimmtán stiga hita, brunaði blaðamaður frá Borgarfirði eystra til Egilsstaða. Þarna eru fjöllin há og tignarleg og heiðin breið og fátt betra en að njóta tónlistar og útsýnisins í bílnum undir heiðbláum himni. Grænn skúr við veginn vakti forvitni blaðamanns, en við hlið hans var lítið gult pikknikk-borð umkringt grænu grindverki. Bíll stóð þar við veginn og kona ein var að skoða sig um. Uppi á miðri heiði átti ég síst von á því að rekast á eitthvað sem leit í fyrstu út eins og minnsta kaffihús í heimi, en reyndist vera kóksjálfsali, knúinn sólarorku. Blaðamaður snarhemlaði og sneri við til að kanna málið og hitti þá hina þýsku Barböru sem vissi allt um sjálfsalann. Forvitni blaðamanns fyrir sjálfsalanum vék fljótlega fyrir konunni sjálfri, enda kom í ljós að hún hafði sögu að segja. Þannig vildi það til að tvær ókunnugar konur sátu saman aleinar uppi á heiði og önnur sagði hinni frá lífi sínu.

Brast í grát á Íslandi

Barbara er frá München í Þýskalandi og bjó þar lengst af. Hún starfaði sem flugverkfræðingur hjá Lufthansa en þegar hún var á miðjum aldri urðu vendingar í lífi hennar.

„Það má kannski segja að ég hafi verið í miðlífskrísu. Þeirri hugmynd laust niður í huga mér, nánast um miðja nótt, að ég yrði að ferðast hingað og skoða mig um. Ég var á þeim tíma í sambúð og við bókuðum ferð umhverfis Ísland. Mér fannst landið svo stórkostlegt og leið eins og hér væri heimili sálar minnar. Á einum tímapunkti brast ég í grát og maki minn horfði bara á mig forviða, en ég gat ekki útskýrt hvers vegna ég grét svona. Tilfinningin var eins og eldgos; ég fann fyrir djúpstæðri vissu um að hér yrði ég að búa. Ég sagði við hann: „Ég held ég fari aldrei af þessari eyju; ég mun aldrei fara heim aftur,““ segir Barbara en nefnir að auðvitað hafi hún farið heim eftir þessa tveggja vikna ferð.

„Tilfinningin sem ég hafði fundið á Íslandi var svo sterk að hún vék ekki frá mér næstu fjögur árin. Það tók mig þessi ár að finna leið til að brjótast út úr mínu gamla lífi og koma hingað. Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að fara að þessu, en ég hafði unnið 28 ár sem verkfræðingur hjá Lufthansa, sem er mjög stöndugt fyrirtæki,“ 

. Ég batt enda á samband mitt og sagði upp og einmitt þá fann ég draumaíbúðina mína í München. Næstu tvö árin kom ég hingað oft, á öllum árstíðum, til að sjá hvernig það væri að vera hér að vetri til. Síðan seldi ég gamla góða Bensann minn og keypti mér gamlan jeppa og flutti með hann til Íslands árið 2015,“ segir Barbara og segist hafa vitað að ef hún tæki ekki þetta skref myndi hún sjá eftir því alla ævi.

Ég hef ekkert betra að gera!

Eftir nokkurt flakk um landið, þar sem Barbara vann um skeið, fann hún sig atvinnulausa á Íslandi. Hún hugsaði með sér að þetta gengi ekki: hún væri komin yfir fimmtugt, ein og atvinnulaus á Íslandi og ætti bara að drífa sig aftur heim til Þýskalands.

„Ég planaði heimferðina og bókaði mig í ferjuna með bílinn frá Seyðisfirði, en þurfti að koma við á bóndabæ einum þar sem ég átti smávegis dót. Það voru aðeins nokkrir dagar í brottför þegar ég hitti þar Jónas Benediktsson frá Ljósalandi við Fáskrúðsfjörð. Ég hafði aðeins kynnst honum áður, en þekkti ekki mikið. Hann hafði nokkru áður keypt Ljósaland, sem var gömul rafstöð, en þaðan fékk Fáskrúðsfjörður eitt sinn allt sitt rafmagn. Hann vildi koma stöðinni aftur í gang og þar sem ég er rafmagnsverkfræðingur bað hann mig að kíkja á þetta. Við fórum í rafstöðina og ég sagði honum strax að það væri ekki hægt að endurvekja rafstöðina. En hann hafði einnig keypt þarna fínasta hús og var að hugsa um að opna þar gistiheimili. Eftir fjögurra tíma spjall yfir miklu kaffi og kökum stakk hann upp á því að ég myndi reka gistiheimili þarna. Ég hugsaði með mér: því ekki það? Ég hef ekkert betra að gera!“ segir hún og hlær.

„Ég sagði honum að ég myndi fara yfir veturinn til Þýskalands en ég kom svo aftur um miðjan apríl 2017. Við gerðum allt upp og komum húsinu í stand og opnuðum í júlí sama ár. Það er alltaf sama spurningin í ferðamennsku alls staðar; hvar á starfsfólkið að búa? Jónas bauð mér lítið herbergi í húsinu en við komumst fljótt að því að við vorum mjög góð saman og áður en varði urðum við par,“ segir Barbara.

Málar vatnslitamyndir og selur

Eftir að hjónaleysin hættu að taka á móti ferðamönnum fór Barböru að leiðast og vissi að hún þyrfti að finna sér eitthvað að gera.

„Ég byrjaði að mála og tók nokkra kúrsa í vatnslitamálun. Ég fór líka að skrifa, enda þurfti ég að hafa eitthvað að gera yfir langa vetur,“ segir Barbara. 

Barbara málar nú vatnslitamyndir af náttúru og fuglum sem hún lætur prenta á tækifæriskort sem seld eru víða. Hún var einmitt á leiðinni frá Fáskrúðsfirði til Borgarfjarðar eystri með kort þegar hún rakst á blaðamanninn uppi á heiði.

Barbara málar náttúru og fugla og lætur prenta á tækifæriskort …
Barbara málar náttúru og fugla og lætur prenta á tækifæriskort sem ferðamenn kaupa.

„Túristarnir kaupa kortin mín og ég seldi 400 stykki í fyrra,“ segir hún og segist einnig selja kortin sín í Gallerí Kolfreyju þar sem hún vinnur til jafns við hina sem þar sýna, en þar er opið á sumrin. Hún situr einnig þar í stjórn, en þess má geta að hún mun sýna þar verk sín frá 1.-9. júlí næstkomandi.

Ítarlegt viðtal er við Barböru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert