Geitin Hallgerður er uppátækjasöm

Obba á Lynghóli í Skriðdal segir að geitur séu svo …
Obba á Lynghóli í Skriðdal segir að geitur séu svo skemmtilegar. Hún býr til osta, skyr og jógúrt úr mjólkinni undir merkinu Geitagott. mbl.is/Ásdís

Í Skriðdalnum var vorhret um miðjan maí þegar blaðamaður átti þar leið um. Snjókoma og fjúk og tveggja stiga frost tók á móti honum þegar hann lagði leið sína á sveitabæinn Lynghól til fundar við geitabóndann Þorbjörgu Ásbjörnsdóttur, ávallt kölluð Obba. Hún býður inn í hlýjuna og beint inn í eldhús þar sem hún hellir á könnuna. Obba kann vel við sig á Lynghóli þar sem hún hefur búið í bráðum aldarfjórðung með eiginmanni sínum Guðna Þórðarsyni. Þau eru nú orðin tvö eftir í kotinu en hjónin, sem eiga eina dóttur, hafa tekið að sér fjöldann allan af fósturbörnum síðustu þrjátíu ár.

Á bænum eru bæði kindur og geitur, en Obba gerir nú ýmsar tilraunir með mjólkina. Ost, skyr og jógúrt framleiðir hún undir merkinu Geitagott og hefur gaman af. Hún segir geitur skemmtilegar skepnur, hverja með sinn eigin persónuleika.

Geitur eru mátulega óþekkar

Obba er Húnvetningur en sextán ára fór hún að heiman og „flæktist um víða“, eins og hún orðar það. Á Snæfellsnesi kynntist Obba Guðna og fluttu þau síðar austur í Skriðdal, en búskapur Obbu og Guðna hófst hinum megin á landinu.

Hjónin voru með hesta þegar þau bjuggu fyrir vestan, en keyptu þrjú hundruð kindur þegar þau fluttu austur.

„Mest vorum við með sjö hundruð kindur en fækkuðum þeim aftur. Árið 2014 keyptum við svo fyrstu geiturnar en það var gamall draumur. Mig hafði langað svakalega lengi að eiga geitur því þær eru svo skemmtilegar og við eigum í dag 64 hausa,“ segir hún og bætir við að reyndar séu geiturnar nú orðnar hundrað með litlu nýfæddu kiðlingunum.

Í Skriðdalnum var skítakuldi um miðjan maí en Obba lætur …
Í Skriðdalnum var skítakuldi um miðjan maí en Obba lætur veðrið ekki á sig fá og er öllu vön.

„Ég er rosa dýrakerling og þær eru mátulega óþekkar til að ég geti haft gaman af þeim. Þær gera alla daga betri,“ segir hún og segir stofninn upprunastofn.

„Stofninn hér hefur farið niður í hundrað en í dag eru 1.600-1.700 geitur á landinu. Það eru getgátur um að geitur hafi komið hingað fyrst með Pöpum því ef maður ferðast um landið er mikið af örnefnum þar sem orðið geit kemur fyrir.“

Þekkir flestar með nafni

Næst lá leiðin í gegnum hríðina inn í fjárhúsin. Jarmið fyllti loftið og það var líf og fjör hjá rollunum sem sumar voru um það bil að bera á meðan aðrar voru rólegar með nýju litlu lömbin sín. En athyglin var að sjálfsöðu á geiturnar sem Obba segir svo skemmtilegar. Geiturnar, svartar og hvítar og sumar marglitar, hoppuðu og skoppuðu um ásamt litlum sætum kiðlingum.

Obba tók eina í fangið sem virtist líka það vel, en hún segist nefna allar geiturnar og þekkir þær flestar með nafni.

„Við erum alltaf með nafnaþema á hverju ári. Í ár var það dætur Grýlu,“ segir Obba og segir þau nöfn tekin úr gamalli þulu.

„Við vorum einu sinni með þemað íslenskar formæður og nefndum einmitt eina eftir Hallgerði langbrók. Eitt árið vorum við með nöfn gyðja úr goðafræðinni og í fyrra tengdust nöfnin öll prjónaskap, eins og Snúra, Hespa og Hnota. Svo höfum við verið með jurtaþema og nefndum þá nöfnum eins og Fífa og Gleym-mér-ei.“

Hallgerður skemmtileg og óþekk

Eru sumar geitur skemmtilegri en aðrar?

„Já, það eru uppáhaldsættir. Eins og ættin undan Hallgerði; það eru skemmtilegar geitur en hundleiðinlegar í mjöltun. Svo er einn ættleggurinn stór og skeleggur; ansi öflugar. Geiturnar sem við keyptum af Háafelli eru spakar og rólegar og hver geit hefur sinn persónuleika. Sumar eru gæfar og aðrar styggar. Sumar leyfa manni að mjólka sig en vilja ekkert með þig hafa en aðrar eru alltaf þægar og eru aðsópslitlar og maður tekur varla eftir þeim,“ segir Obba og finnst greinilega þessar óþekku skemmtilegri.

„Hallgerður er endalaust skemmtileg og uppátækjasöm. Hún er óþekk og fær mann til að hlæja. Hún var þjálfuð sem sirkuskið en dóttir mín kenndi henni alls konar kúnstir; að standa á afturfótum, ganga á milli fóta hennar, stökkva hástökk og kyssa hana og heilsa,“ segir Obba og segir mjög auðvelt að kenna geitum.

Elsa Guðrún kemur oft í heimsókn og fær að hnoðast …
Elsa Guðrún kemur oft í heimsókn og fær að hnoðast í geitunum. Þær láta sér það lynda.

En eru þær kelirófur?

„Já, megnið af þeim. Einhverjar vilja ekkert með mann hafa en um 80% vilja klapp, knús og kjass. Kiðlingunum finnst allt í lagi að láta hnoðast með sig,“ segir Obba, en í fjárhúsunum var einmitt stödd lítil stúlka, Elsa Guðrún, sem fékk sannarlega að hnoðast með kiðlingana.

Ítarlegt viðtal er við Obbu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert