Ökumaður bifreiðar komst undan lögreglu í miðbænum í gærkvöldi við hefðbundið umferðareftirlit lögreglumanna. Bifreiðin fannst mannlaus í lausagangi. Vegfarandi benti lögreglu á að ökumaðurinn hefði hlaupið inn í garð skammt frá og komst hann undan lögreglu.
Lögreglumenn stöðvuðu annan ökumann á bifreið í miðbænum þar sem bifreiðin reyndist vera með fjögur nagladekk. Var ökumaðurinn sektaður, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá barst lögreglu tilkynning um ungmenni sem voru að kasta grjóti í rúðu á húsnæði þess sem tilkynnti. Ungmennin óku burt á rafskútu og var engan að sjá þegar lögreglu bar að.
Málið er bókað á lögreglustöð 3 sem sinnir verkefnum í Breiðholti og Kópavogi.
Þá stöðvaði lögregla ökumann sem grunaður er um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Reyndist hann einnig vera án ökuréttinda og var handtekinn.
Málið er bókað á lögreglustöð 4 sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ.
Þó nokkuð var um aðstoð vegna veikinda, hávaðakvartanir og tilkynningar um aðila í annarlegu ástandi sem lögregla sinnti.
Lögreglu barst einnig tilkynning um íkveikju í Árbæ, en frekari upplýsingar um það koma ekki fram.