„Markmiðið mitt með námskeiðinu er fyrst og fremst að undirbúa fólk sem er að eignast barn til þess að fara öruggt í fæðingu með góðan skilning á fæðingarferlinu,“ segir Inga María Hlíðar, hjúkrunafræðingur og ljósmóðir, en hún hefur sett á laggirnar fyrsta fæðingarfræðslu netnámskeiðið af þessu tagi á Íslandi.
Námskeiðið er byggt þannig upp að þú getur horft eða hlustað á það hvar og hvenær sem er. Ekki ólíkt „Masterclass“ námskeiðunum. „Þú færð aðgang í 8 mánuði og getur horft á allt í einu eða skipt þessu niður, allt eftir því hvað hentar þér og þeim sem verður með í fæðingunni,“ segir hún.
Hvernig varð hugmyndin til að gera þetta námskeið?
„Ég skrifaði bók sem var ætluð sem undirbúningur fyrir fæðingu fyrir verðandi foreldra sem Almenna bókafélagið gaf út árið 2021. Bókin varð til upp úr punktum sem ég ritaði niður fyrir manninn minn þegar við áttum von á okkar fyrsta barni. Punktum sem mér þóttu gagnlegir fyrir hann að vita svo hann gæti notið þess að vera með í fæðingunni og verið góður stuðningur fyrir mig í fæðingunni,“ segir hún og bætir við.
„Eftir að bókin kom út fékk ég mjög góðar viðtökur frá ljósmæðrum, fæðingarlæknum og verðandi foreldrum svo hugmyndin að námskeiði byggt á bókinni kom fljótlega í kjölfarið.“
Hún segir að markmið sitt með þessu námskeiði sé að undirbúa foreldra sem séu að eignast barn til þess að fara öruggt í fæðingu og gefa því góðan skilning á fæðingaferlinu. „Ég trúi því að ef fólk hefur betri skilning á því hvernig ferlið virkar að þá öðlist það meira sjálfstraust og sjálfsöryggi til að vinna í sameiningu með fagfólkinu sem kemur að fæðingunni að betri upplifun af fæðingunni.“
Hvað munu mæður/verðandi mæður læra á þessu námskeiði?
„Fjallað er um hugmyndafræði í barneignarþjónustu og væntingar til fæðingar, stig fæðingar, verkjameðferðir með og án lyfja, algeng inngrip í fæðingu og fyrstu klukkutímana/dagana eftir fæðingu þar sem aðeins er komið inn á brjóstagjöf,“ segir Inga.
Hún segir að auðvelt sé að nota námskeiðið og að alltaf sé hægt að horfa aftur á kafla. Námskeiðið er í fimm hlutum og er með 17 mismunandi myndskeið. Þar að auki fylgja með glósur úr hverjum hluta. Til að fræðast meira um námskeiðið er hægt að fara á heimasíðuna.