„Þetta var fyrsta ríkisheimsókn Íslands til Kanada í 23 ár og markmiðið var auðvitað að styrkja margþætt tengsl landanna, við fögnuðum til dæmis 75 ára afmæli stjórnmálasambands,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is um heimsókn þeirra Guðna Th. Jóhannessonar forseta og Elizu Jean Reid forsetafrúar á slóðir Vestur-Íslendinga í Kanada en sem kunnugt er rekur forsetafrúin uppruna sinn einmitt til Ottawa þar í landi.
„Eins er gaman að segja frá því að þetta var fyrsta ríkisheimsókn nokkurs lands til Kanada eftir heimsfaraldur, svo við vorum fyrst til að koma til þeirra eftir faraldurinn heldur ráðherra áfram og kveður margt hafa verið um dýrðir.
„Enn er þarna svo öflugur hópur Vestur-Íslendinga sem leggja mjög mikla rækt við Ísland. Marie Simmons landsstjóri bauð til móttöku ásamt Justin Trudeau [forsætisráðherra Kanada] og Guðna og þangað var öllum þessum Vestur-Íslendingum boðið,“ segir ráðherra og bætir því við að nokkur áhersla hafi verið lögð á skapandi greinar í heimsókninni.
„Og tungumálið,“ segir Lilja Dögg með áherslu, eftir stutta málhvíld, „hvað ríki á borð við Ísland hafi gert síðustu ár til þess að styðja við framtíð tungumálsins í hinni stafrænu byltingu. Við Guðni áttum fund með landsstjóranum og leiðandi fræðimönnum í frumbyggjamálum sem var mjög spennandi. Ég greindi frá máltækniáætlun okkar og fór yfir þingsályktunartillögur, hvort tveggja eldri og þær sem við erum að kynna núna, hvernig við höfum nálgast máltækni markvisst sem gerir það að verkum að við munum að lokum geta talað íslensku við öll tækin okkar,“ segir ráðherra.
Sóttu íslensku gestirnir málþing um framtíð tungumála en auk þess fundaði Lilja Dögg með listaráði Kanada. „Við skiptumst á upplýsingum um hvernig við nálgumst stefnumótun í skapandi greinum og þau eru mjög áhugasöm um hvað við höfum verið að gera þar í kvikmyndaiðnaði, tónlist og fleiru. Listaráðið hefur verið að einblína meira á viðskiptahlið lista en ekki það sem við höfum verið að gera á Íslandi með listamannalaunum og þessum sjóðum sem við höfum verið með, en þetta þurfa að vera tvær jafn öflugar stoðir,“ segir hún.
Segir ráðherra Kanadabúa glíma við töluverðar áskoranir eftir heimsfaraldurinn og vera þar nokkrum skrefum á eftir Íslendingum sem stutt hafi eftir megni við listir og menningu gegnum allan faraldurinn.
„Ég heimsótti svo Listasafn Kanada og kynnti mér stefnu safnsins og framtíðarsýn til 2030 þar sem mér voru fyrst sýnd verk eftir íslenskan listamann, innsetning eftir Ragnar Kjartansson, og svo verk eftir Roni Horn sem er með verk þarna ásamt Margréti Haraldsdóttur Blöndal, mjög stór verk sem taka mikið pláss og taka upp eitt stærsta rýmið á samtímalistadeild safnsins sem er bara stórkostlegt,“ segir ráðherra.
Aðspurð ber hún Kanadabúum vel söguna sem gestgjöfum, viðtökurnar hafi verið stórkostlegar. „Og þeir kunna að meta okkar bókmenntasögu og okkar menningu og hafa mjög mikinn áhuga á samskiptum við okkur. Ég fann til dæmis vel fyrir því í listasafninu og maður er bara ótrúlega þakklátur fyrir að fá að fara í þessa heimsókn og fá að upplifa þetta,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, að lokum um för þeirra forsetahjóna til Kanada, þangað sem Íslendingar leituðu betra lífs í lok 19. aldar og sáðu um leið fræjum norrænnar menningar sem enn skjóta rótum.