Fáar þjóðir drekka jafnmikla mjólk og Íslendingar. Þetta kemur fram í alþjóðlegri könnun, The World Dairy Situation 2021. Ísland er í 12. sæti á listanum en Norðurlandaþjóðirnar eru allar í hópi 15 efstu þjóða. Á toppi listans trónir Írland en Írar drekka 105 lítra af mjólk á hvern íbúa á ári.
Ekki ætti að koma á óvart að allar Norðurlandaþjóðirnar sitji á listanum enda eru þær hluti af þeim 30% jarðarbúa sem þola mjólkina vel. „Langflestir á Norðurlöndunum eru með ensímið laktasa sem getur brotið niður mjólkursykur sem 70% jarðarbúa geta ekki,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, verkefnastjóri næringar hjá Embætti landlæknis.
Neysla mjólkur og mjólkurvara hefur samt sem áður minnkað töluvert meðal Íslendinga á seinustu áratugum. Niðurstöður síðustu landskönnunar á mataræði hér á landi frá 2019-2021 leiddu í ljós að Íslendingar neyta að meðaltali 245 g af mjólk eða mjólkurafurðum á dag, sem er 50 grömmum minna en í síðustu könnun frá árunum 2010-2011.
Landskönnun frá árunum 1990-1991 sýndi að meðalneysla þá hafi verið rúmlega hálfur lítri á dag. Hefur því neysla á mjólk og mjólkurafurðum dregist mikið saman, eða um helming á seinustu 30 árum.
Nánar er rætt við Jóhönnu Eyrúnu og mjólkurneysla landsmanna skoðuð í laugardagsblaði Morgunblaðsins