„Þau standast ekki útboðskröfur,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is um tvö lægstu tilboðin í gerð nýs Arnarnesvegar, tilboð Óskataks ehf. og Háfells ehf.
Hins vegar hyggst Vegagerðin semja við Suðurverk hf. og Loftorku ehf. sem buðu 1.334 milljónum meira í gerð Arnarnesvegarins nýja sem auk þess er 616 milljónum yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar um Arnarnesveginn sem samkvæmt áætlun á að vera tilbúinn sumarið 2026.
Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu á fimmtudag þar sem Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, gagnrýnir Vegagerðina harðlega, meðal annars fyrir að láta hjá líða að ganga úr skugga um hvort lægstbjóðendur séu hæfir til að vinna verkið.
„Það er það sem nefndin er að taka afstöðu til,“ heldur G. Pétur áfram og svarar þar spurningu um hvort höfnun Vegagerðarinnar á lægstu tilboðum byggist á túlkunaratriði en ástæðan fyrir því að ákveðið var að ganga ekki að lægstu tilboðum er að tilboðsgjafar teljast ekki uppfylla skilyrði um meðalársveltu sem skuli nema fimmtíu prósentum af tilboðsfjárhæð. Telja forsvarsmenn Óskataks og Háfells að túlkunin velti á því hvernig reiknað sé – meðalársvelta síðustu þriggja ára nái tilboðsupphæð.
Nefndin er kærunefnd útboðsmála en til hennar hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna kært höfnun Vegagerðarinnar á tilboðum þeirra. Á meðan meðferð þess fyrir nefndinni stendur er útboðsferlið hins vegar á ís og ekkert gerist þar. Kveður G. Pétur Vegagerðina hafa sóst eftir því við nefndina að frá þessu verði veitt undanþága.
„Þetta er bara okkar kostnaðaráætlun,“ svarar hann um verð Arnarnesvegarins nýja en í Facebook-hópnum Vinum Vatnsendahvarfs benti Helga Kristín Gunnarsdóttir á það á fimmtudag að vegur, sem upphaflega hefði átt að kosta 1,5 milljarða ætti nú að kosta nær 6,8 milljarða. Þó má benda á að fyrri talan er ekki uppreiknuð miðað við fast verðlag.
„Hugmyndum okkar íbúa um að endurskoða hönnunina og leggja veginn í stokk eða göng var alltaf hafnað vegna þess hversu dýrt það yrði. Vegakaflinn sem um ræðir er 1,3 km. Til samanburðar þá kostuðu Dýrafjarðargöng, sem eru 5,3 km, 11,7 miljarða,“ skrifar Helga Kristín.
Bendir hún á að ríki og sveitarfélög muni greinilega ekkert um að sólunda fimm milljörðum aukalega af skattfé í þessa illa ígrunduðu framkvæmd, eins og hún orðar það.
„En svo eru engir peningar til aukalega til að greiða lægst launaðasta [sic] starfsfólki sveitarfélaganna mannsæmandi laun,“ skrifar hún enn fremur.
Alls bárust fimm tilboð í verkið og átti Ístak hf. það hæsta, tæpa sjö milljarða sem eru 113,3 prósent af kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Tilboðið, sem Vegagerðin hyggst taka, hljóðar upp á tæplega 6,8 milljarða og er 110 prósent af kostnaðaráætlun.
Eftir því sem fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar felast framkvæmdirnar í nýbyggingu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut með tveimur hringtorgum, vegbrú yfir Breiðholtsbraut og einum ljósastýrðum vegamótum ásamt breikkun Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Vatnsendahvarfi.
Í verkinu eru tvenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi, stofnstígar og stígatengingar. Auk þess tilheyrir verkinu lagning nýrrar hitaveituæðar Veitna, Suðuræðar II. Einnig verður unnið við hljóðdeyfigarða og hljóðveggi, regnvatnslagnir, snjóbræðslulagnir, settjörn, regnbeð, götulýsingu og lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar.
Þetta áætlar Vegagerðin að muni kosta 6.150.551.086 krónur.