Odee stofnar til netsöfnunar fyrir málskostnaðinum

Heimasíðan var sett upp í Bretlandi og gefið í skyn …
Heimasíðan var sett upp í Bretlandi og gefið í skyn að útgerðarfélagið Samherji væri ábyrgðaraðilinn. Skjáskot

Listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, sem kallar sig Odee, hefur hafið söfnun fyrir málskostnaði í máli sem Samherji hefur höfðað á hendur honum í Lundúnaborg. 

Tilefni málshöfðunarinnar var listgjörningur Odds sem fól í sér að hann skrifaði afsökunarbeiðni í nafni Samherja til Namibíu og birti á bresku léni. Gjörningurinn var lokaverkefni Odds, en hann vakti talsverða athygli og náði til þriggja heimsálfa. 

Í kjölfarið gaf Samherji frá sér tilkynningu um að fyrirtækið hafi ráðið þrjá lög­menn í Bretlandi til að gæta hags­muna þess.

Odee, Oddur Eysteinn.
Odee, Oddur Eysteinn. Sigurður Unnar Ragnarsson

Í stríði við eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims

Söfnunin hans Odds fer fram í gegnum vefsíðuna crowdjustice.com. Þar kynnir hann sig sem íslenskan listamann og menningarlegan aðgerðarsinna sem standi nú í stríði við eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims. 

„Fyrirtækið hefur höfðað mál gegn mér fyrir æðri dómstól Lundúna, á grundvelli vörumerkja- og hugverkaréttar, í þeim tilgangi að fá lögbann staðfest. Ég trúi því staðfastlega að þessi málsókn sé ósanngjörn tilraun til þess að kveða niður tjáningarfrelsi mitt og viðleitni mína til þess að beina kastljósinu að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins.“

Oddur stefnir að því að safna 25 þúsund bandaríkjadölum, eða tæplega 3,5 milljónum íslenskra króna. Nú þegar þetta er ritað hefur honum tekist að safna tæplega 216 þúsund krónum upp í þann kostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert