Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, biðst velvirðingar á að hafa kallað formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL), Sigurjón Rúnar Rafnsson, heiðursræðismann Rússa á Íslandi.
Um sé að ræða mistök af hennar hálfu, en það er Ólafur Ágúst Andrésson, starfsmaður Sigurjóns og forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, sem er kjörræðismaður Rússlands á Íslandi.
Í samtali við mbl.is vísar Þorgerður í tilkynningu á Facebook-síðu sinni varðandi málið. Ítrekar hún að þrátt fyrir að hún biðjist velvirðingar á mistökunum þar sem rétt skuli vera rétt, breyti það ekki kjarna málsins.
„Samtökin, ásamt þingmönnum Framsóknar og einhverjum hluta hjá Sjálfstæðisflokknum, komu í veg fyrir að þessi undanþága var framlengd,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is og á þá við undanþágu um tollskyldu á úkraínskum vörum.
„Það voru ekki einu sinni reyndar aðrar leiðir, heldur var hún bara stoppuð,“ bætir hún við.
„Þetta er mjög dapurleg birtingarmynd á íslenskum stjórnmálum, því við skulum hafa það hugfast að það var alveg skýr vilji hjá mörgum ráðherrum í ríkisstjórninni. En ítök Samtaka fyrirtækja í landbúnaði eru það mikil að það var hægt að stoppa málið.“
Segir hún að henni þyki það aumt af hálfu stjórnvalda að halda úti fögrum fyrirheitum um stuðning við Úkraínu, þegar sá stuðningur og samhugur stöðvist við tollfrjálsar kjúklingabringur vegna skammtímahagsmuna þröngs hóps.
Formaður SAFL, Sigurjón Rúnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að niðurfellingar á tolli á vörum frá Úkraínu þýði að stuðningur við landið bitni einungis á bændum og hann teldi því æskilegra að fylgja fordæmi Noregs og Sviss og veita stuðning með fjárveitingum.
Þorgerður telur þó ekki að markaðshlutdeild kjúklingaframleiðenda sé minni en áður, heldur ýti undir frekari samkeppni í iðnaðinum, sem sé alltaf af hinu góða. „Það leiðir almennt til þess að það sé meiri nýsköpun í greininni.“ Það skili sér almennt í betri hagræðingu og verði.
Bendir Þorgerður Katrín þá á að niðurfellingar á tolli fari að fordæmi Bretlands og Evrópusambandsins og séu að óskum Úkraínumanna.
„Þetta hefur meðal annars verið ósk frá Úkraínumönnum að halda þessum hjólum, þessum veiku hjólum sem eftir eru, gangandi og þetta er leið til þess. Þó að við þurfum að fórna einhverjum sérhagsmunum tímabundið,“ segir Þorgerður.
„Allir þurfa að taka þátt í því. Allir þurfa að færa fórnir.“
Sigurjón Rúnar tjáði mbl.is í gær að hann teldi að landbúnaðariðnaðurinn ætti undir högg að sækja og að opinber stuðningur við íslenskan landbúnað hafi hrunið á síðustu árum. Segir Þorgerður að því beri að halda til haga að Ísland sé með hæsta stuðning við landbúnaðariðnað innan OECD-landanna, en að það breyti því ekki að hún sé sammála Sigurjóni um að kerfið sé úrelt.
Evrópusambandið hafi byggt upp öflugt stuðningskerfi fyrir Evrópska bændur ásamt einn stærsta markað fyrir landbúnaðarvörur. „Ég hefði haldið að það væri til hagsbóta fyrir íslenska bændur,“ segir Þorgerður sem segir kerfið eins og það er í dag hvorki vera bændum né neytendum í dag.
„Ég segi bara við hann, eins og aðra, komum fagnandi og förum saman að breyta kerfinu þannig að þetta verði kerfi fyrir bændur og fyrir neitendur, en ekki bara kerfi fyrir milliliði.“
Hún kveðst meira en tilbúin að fara í vinnu með Sigurjóni til að styrkja íslenskan landbúnað. „Þar eru sóknarfæri, en þau eru ekki nýtt á meðan við höfum þetta kerfi.“
Hún sé hins vegar ekki tilbúin til að fara þá vegferð sem Sigurjón og þingmenn Framsóknarflokksins hafi farið fram á, um að gera undanþágur á samkeppnislögum fyrir t.d. kjötafurðastöðvar. „Ég tel það ranga leið, því ég trúi meira á samkeppnina heldur en hitt. Ég ætla ekki að fara í það að auka fákeppnina hér á Íslandi.“