Söngkona Eygló Scheving er afar spennt að koma fram í Flóa í Hörpu á föstudaginn ásamt öðru tónlistarfólki. Meðal annars kemur þar fram hljómsveitin Curawaka sem hefur verið að túra um Evrópu.
Hvað er Midnight Sun Festival?
Þetta er lítil tónlistarhátíð sem haldin verður eina kvöldstund, þann 16. júní í Flóa í Hörpu. –Hugmyndin var að skapa útihátíðarstemningu, þó að þetta sé inni. En þarna eru stórir gluggar og útsýni út á haf, Esju og miðnætursólina. Það verða teppi á gólfunum og fólk getur tekið með sér púða og getur þá setið á gólfinu og jafnvel dansað líka.
Hvaða fólk verður með þér þarna?
Þarna kemur fram hljómsveitin Curawaka sem er mjög skemmtileg og einstök. Hún spilar heimstónlist þar sem þau heiðra ýmsa menningarheima, en sveitin er sjálf mjög fjölþjóðleg. Lögin eru mjög fjölbreytt og þau spila frumsamda tónlist en einnig söngva frá ættbálkum frá Suður-Ameríku. Aðalsöngkonan, sem er norsk, syngur á sjö tungumálum og það er mikil sál í þessu. Curawaka er einmitt að enda stóran túr þar sem þau hafa verið að kynna nýju plötuna sína. Við erum síðasti áfangastaðurinn þeirra og þau eru mjög spennt að koma.
Hvernig er dagskráin?
Sönkonan Júlía Óttarsdóttir byrjar, eða Júlía Alchemy, en hún var einmitt að gefa út nýtt lag í vikunni. Svo kemur Sveinbjörn fram og spilar íslenska tónlist og möntrur og síðan kem ég fram og syng þjóðlagatónlist, en ég er í grunninn söngkona í rokkhljómsveitinni Vicky. Þannig að nú fer ég aðeins inn á nýjar brautir og syng þarna gömul íslensk lög en í möntrubúningi. Með mér verður Óli Ben sem kallar sig Ata ævintýri, en hann er galdrakarl á trommum. Svo endar þetta í danspartíi með DJ Leon.
Hvað mun fólk fá út úr kvöldinu?
Gæðastund með fallegri tónlist og góðri samveru.