Varmadæla sparar fyrir einstaklinga og þjóðarbú

Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun
Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun, er sannfærður um ágæti varmadælunnar, ekki bara fyrir notandann heldur sé hún líka þjóðhagslega hagkvæm. Rafhitað húsnæði sem setur upp varmadælu getur helmingað raforkunotkun sína.

Það rafmagn sem annars hefði verið notað til húshitunar fer þess í stað inn í raforkukerfið og selt hærra verði. Rafmagn til húshitunar á Íslandi er niðurgreitt og hefur á sér lægri skattprósentu en almennt raforkuverð. Rafmagnið sem sparast er þá hvorki niðurgreitt og ber hærri skattprósentu. Hagkvæmnin er óumdeild fyrir samfélagið segir Sigurður Ingi.

Varmadæla gagnast líka í þéttbýli

Í spjalli við mbl.is segir Sigurður að ýmsar ástæður séu fyrir því að innleiðing varmadælu gangi ekki jafn hratt og til dæmis á öðrum norðlægum slóðum. Hið fyrsta sé almennt lágt raforkuverð á Íslandi og svo það niðurgreiðslukerfi sem þegar er til staðar.

Varmadæla er ekki bara hagkvæm lausn fyrir hús í dreifbýli og orlofshús. Á Austfjörðum, Snæfellsnesi og Vestfjörðum eru heil bæjarfélög sem treysta alfarið á rafhitun og gæti varmadælan komið að miklum notum þar.

Sigurður Ingi bendir líka á þjóðhagslegan sparnað. „Það bráðvantar þetta rafmagn, það vantar strax í aðra notkun. Það getur farið beint í eitthvað annað eins og rafbíla eða nýjar íbúðir í Grafarholti. Íbúar fatta það kannski ekki sjálfir að þeir eru í raun að skila þúsundum kílóvattstunda inn í kerfið, sem afleiðing eigin sparnaðar.“

Hjálpar þegar álagið er mest

Mest álag á kerfi rafhitunar er yfir köldustu mánuði vetrar, sem eru jafnframt þeir mánuðir sem framleiðslugeta vatnsaflvirkjana er hvað minnst, vegna lágrar vatnsstöðu og mögulegra ísalaga. Varmadælan gæti létt það álag töluvert.

Þrátt fyrir tiltölulega lágt raforkuverð hérlendis segir Sigurður Ingi innleiðingu á varmadælum ganga ágætlega. „Sérstaklega eftir lagabreytingar sem tóku gildi í haust. Þær einfölduðu kerfið, og nú er miklu einfaldara fyrir notendur að koma inn í það. Við höfum hins vegar lent í því að það er bið eftir varmadælum, af því hún er að slá í gegn erlendis sem svar við gasleysi í Evrópu.“

Dæmi eru um sveitarfélög bæti eigin styrkjum ofan á opinberan styrk við uppsetningu varmadælu til að auðvelda og flýta enn fyrir. Sigurður Ingi óskar sér þess að fleiri sveitarfélög fari að þessu fordæmi því þá myndi verkefnið ganga enn hraðar um allt land.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert