„Við erum að horfast í augu við mörg sömu vandamál í tengslum við húsnæðisvanda eins og aðrar ört stækkandi borgir,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur í klippu á Twitter-reikningi OECD-setursins fyrir svæði, borgir og ferðaþjónustu.
Borgarstjórinn tekur þátt í borgarleiðtogafundi í Brussel, dagana 12-15 júní, en fundurinn er á vegum Efnahags- og framfarastofnunar (OECD) og leggur áherslu á vöxt fyrir alla. Fundurinn fjallar um þær áskoranir sem margar heimsborgir standa frammi fyrir í dag, t.d. í tengslum við húsnæðisvanda, loftslagsbreytingar og innflytjendamál.
„Við stefnum á að bjóða upp á húsnæði á enn viðráðanlegra verði, meiri uppbyggingu og meiri þéttingu borga á næstu tíu árum. Það leiðir til þess að 80 prósent þess sem verður byggt verður í nágrenni við verulega auknar almenningssamgöngur.“ segir Dagur í klippunni, en margir borgarstjórar hafa deilt stefnu borgaruppbyggingar í sínum borgum í aðdraganda fundarins.
Í grein varðandi stefnu Reykjavíkur í húsnæðismálum, á vefsíðu OECD-setursins, segir Dagur Reykjavík standa frammi fyrir áskorunum við að tryggja sjálfbæran vöxt og um leið minnka umhverfisfótspor sitt, ásamt því að mæta þörf lágtekjuhópa fyrir ódýrara húsnæði.
Segir hannað síðastliðin fimm ár hafi húsnæðisuppbyggingin verið sú mesta í sögu borgarinnar. Á þessu tímabili hafi byggðum íbúðum fjölgað úr 700 í 1.200 á ársgrundvelli.
Segir hann mikilvægt að leita nýrra lausna. Reykjavíkurborg hafi ekki skotið sér undan því að finna þær. Meðal annars hafi borgin reynt á samstarf milli hins opinbera og einkarekinna fyrirtækja og þannig myndað útboðskerfi fyrir nýsköpun.
Stefnumörkun Dags má lesa í heild sinni hér.