Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ræðukóngur Alþingis þennan þingvetur. Alls talaði hann í 1.940 mínútur, eða rúmlega 32 klukkustundir. Björn var einnig ræðukóngur í fyrra og þingveturinn 2017–2018.
Samkvæmt tölfræði á vef Alþingis kemur fram að Píratar skipa fjögur efstu sætin á lista yfir ræðutíma alþingismanna. Á eftir Birni koma Gísli Rafn Ólafsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og þar á eftir er Andrés Ingi Jónsson.
Í 5. til 7. sæti eru þingmenn Flokks fólksins, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, rekur lestina en hann talaði í alls 107 mínútur.