Ekkert bólar á uppbyggingu á Kringlureit

Dagur B. Eggertsson og Guðjón Auðunsson undirrituðu viljayfirlýsingu árið 2018.
Dagur B. Eggertsson og Guðjón Auðunsson undirrituðu viljayfirlýsingu árið 2018. Eggert Jóhannesson

Ekkert bólar á framkvæmdum á Kringlureit þrátt fyrir að fimm ár séu liðin frá því rammaskipulag þess efnis var samþykkt í borgarráði. Við það tilefni kom fram að vonast væri til þess að framkvæmdir hæfust innan 12-24 mánaða. 

Framkvæmdir á reitnum eiga að bæta við 160 þúsund nýjum fermetrum ofanjarðar. Þeir verða blanda af íbúðum, verslun og þjónustu auk menningar og listastarfsemi ef tekið er mið af áætlunum. Eru framkvæmdirnar á aðalskipulagi 2010-2030. 

Snúið á marga kanta 

„Þetta hefur farið hægar en við hefðum kosið. En þetta er flókið verkefni og snúið á marga kanta,“ segir Guðjón Auðunsson forstjóri hjá Reitum en félagið undirritaði viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á reitnum árið í janúar 2018.

Um 160 þúsund fermetra uppbygging var kynnt árið 2017.
Um 160 þúsund fermetra uppbygging var kynnt árið 2017.

Bendir Guðjón á að því samhengi hafi ýmislegt flækt málin. Færsla á stórum brunni hjá Veitum er sögð kostnaðarsöm. Umræða um Miklubraut í stokk hefur hægt á málinu auk þess sem deildar meiningar hafa verið um framkvæmdina hjá þeim sem eiga byggingarrétt á svæðinu.

Kvörtuðu undan samráðsleysi

Þannig sendi Hús verslunarinnar t.a.m. umhverfis og skipulagssviði bréf árið 2019 þar sem kvartað var undan samráðsleysi.

Var bent á að ef framkvæmdir yrðu líkt og áform segja til um myndi það leiða til þess að tvær hæðir hússins yrðu neðanjarðar og þær því ekki nýtast í verslunarrekstur. 

„Menn hafa líka viljað sjá hönnun á öllu hverfinu áður en farið er af stað. Því þessu verður að sjálfsögðu áfangaskipt,“ segir Guðjón. 

Framkvæmdastjóri ráðinn 1. júní 

Þann 1. júní tók til starfa Sigurjón Örn Þórsson sem framkvæmdastjóri þróunarfélags um uppbyggingu á Kringlureit. Hans hlutverk er að koma öllum sem eiga byggingarrétt að borðinu, en Sigurjón var áður framkvæmdastjóri Kringlunnar til 17 ára.

Sigurjón Örn Þórsson er framkvæmdastjóri þróunarfélags Kringlureits.
Sigurjón Örn Þórsson er framkvæmdastjóri þróunarfélags Kringlureits. Kristinn Magnússon


„Næst á dagskrá er að vonast til þess að hægt verði að mynda þróunarfélagfélag þannig að við mætum borginni sem ein rödd. Það myndi einfalda alla hluti,“ segir Sigurjón sem kveðst bjartsýnn á að það muni takast.

Vonast til að allir leggist á eina sveif

Farið var eftir verðlaunatillögu Kanon arkitekta þegar uppbygging Kringlureits var kynnt árið 2017. Sigurjón segir þó að hann búist við því að horfið verið að einhverju leyti frá þeirri tillögu í framhaldinu.

Hús verslunarinnar á stóran hlut í svæðinu.
Hús verslunarinnar á stóran hlut í svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næst á dagskrá segir hann er að ræða deiliskipulag. „Ef að hlutirnir fara eins og maður vonast til. Þá sameinast aðilar um sín réttindi og leggjast á eina sveif. Í framhaldinu snýr þetta að því að klára hönnun,“ segir Sigurjón.

Verkefnastjóri ráðinn fyrir viku

Átta aðilar eiga byggingarétt á svæðinu. Stærstir þeirra eru Reitir og Hús verslunarinnar auk þess sem nokkuð stórt svæði er borgarland. „Það á eftir að útfæra það hvernig borgin mun koma að þessu,“ segir Sigurjón.

Reykjavíkurborg réð í síðustu viku Ingibjörgu Lind Valsdóttur sem verkefnastjóra yfir uppbyggingunni. Haldnir hafa verið tveir stórir vinnufundir nýverið hjá þeim sem að málinu koma í viðleitni til þess að koma málinu úr hjólförunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert