„Ekki forsenda til að gefa út ákæru“

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar sem ákærður er fyrir tilraun til hryðjuverka, telur nýja ákæru héraðssaksóknara vera á mörkum þess að mæta þeim forsendum sem lágu að baki frávísun hryðjuverkahluta málsins í febrúar.

Fyrirtaka í hryðjuverkamálinu svokallaða fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og hafa nýjar ákærur verið gefnar út á hendur Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni. Aðalmeðferð málsins fer fram í september.

Sindri Snær og Ísidór, sem ákærður er fyrir hlutdeild í meintu broti Sindra, voru viðstaddir fyrirtökuna í héraðsdómi. Þeir neituðu báðir sök á ný.

„Mér finnst hún ekki nægilega góð,“ segir Sveinn Andri um hina nýju ákæru.

„Ég tel að það sé ekki forsenda til að gefa út ákæru.“

Sindri Snær Birgisson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Sindri Snær Birgisson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Gæti flækt hlutina“

Héraðsdómur vísaði hryðjuverkahluta málsins frá í febrúar vegna óskýrs orðalags í ákæru. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í mars.

„Við ræddum það verjendurnir og dómarinn minntist á það áðan að þarna er kominn inn rökstuðningur í hryðjuverkakaflanum þar sem verið er að lýsa háttsemi sem áður er búið að ákæra fyrir, í gömlu ákærunni, sem eru vopnalagabrotin. Það er það sem dómaranum finnst vera skörun hugsanlega.

Það er náttúrulega lagt bann við tvöfaldri refsimeðferð fyrir sömu háttsemi þannig að þetta gæti aðeins flækt hlutina, en við verðum bara að sjá hvernig þetta fer,“ segir Sveinn Andri.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari sagði við fyrirtöku málsins að það væri mat ákæruvaldsins að vopnalagabrotin styðji að búið var að taka ákvörðun um að fremja brotið sem ákært er fyrir, það er tilraun til hryðjuverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert