Fannst umræðan frekar skrítin

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, tekur undir með Sigurjóni Rúnari Rafnssyni, formanni Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, sem benti á í samtali við mbl.is á laugardaginn að Íslendingar hefðu farið aðra leið en Evrópuþjóðir í stuðningi við Úkraínu.

„Í þessu máli eru aðrar þjóðir ekki að láta stuðning við Úkraínu bitna einvörðungu á bændum eins og Íslendingar gera. Það eru stórkostlegar mótvægisaðgerðir hjá Evrópusambandinu og Noregur velur að fara ekki þessa leið en styður Úkraínu með öðrum hætti,“ sagði Sigurjón meðal annars.

Gunnar segir Bændasamtökin hafa bent þingmönnum á þetta þegar unnið var að frumvarpinu. Þá hafi ekki verið neinir fyrirvarar í bókun Íslendinga eins og hjá öðrum þjóðum.

„Okkur þótti það mjög merkilegt en þá sögðu þingmenn að þessi stuðningur við landbúnað í Úkraínu væri frekar táknrænn en að þetta myndi gerast. Kom það einnig fram í greinargerðinni með frumvarpinu og er athyglisvert. Þar stóð að ekki væri fyrirsjáanlegt að fluttar yrðu inn landbúnaðarvörur frá Úkraínu. Við vöruðum við því fyrir ári að ekki væru settir neinir fyrirvarar varðandi íslenskan landbúnað og þetta hafði gríðarleg áhrif,“ sagði Gunnar þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Þorgerður baðst velvirðingar

Talsverð umræða skapaðist um málið á Alþingi fyrir helgi þegar til umræðu var hvort framlengja ætti bráðabirgðaákvæði um tollfrelsi landbúnaðarvara frá Úkraínu. Var tekist nokkuð á í þingsal um málið.

„Mér fannst sú umræða frekar skrítin. Eitt er að flytja inn afurðir frá úkraínskum bændum en þarna er risafyrirtæki á ferðinni sem framleiðir kjúklingakjöt. Ég velti fyrir mér hvort merkja mætti þetta með „Fairtrade“ sem er alþjóðleg merking um að fólk sé á mannsæmandi launum við framleiðsluna. En er okkur Íslendingum kannski bara skítsama um það?“ spyr Gunnar og bætir því við að fullyrðingar um að Sigurjón væri ræðismaður Rússa á Íslandi hafi verið eins „neyðarlegar og frekast geti orðið“.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar fór með þær rangfærslur í ræðustól Alþingis og baðst velvirðingar á mistökunum í samtali við mbl.is í gær. Ólafur Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, er kjörræðismaður Rússlands á Íslandi en Þorgerður sagði það ekki breyta kjarna málsins.

„Samtökin, ásamt þingmönnum Framsóknar og einhverjum hluta hjá Sjálfstæðisflokknum, komu í veg fyrir að þessi undanþága væri framlengd. Það voru ekki einu sinni reyndar aðrar leiðir heldur var hún bara stoppuð,“ sagði Þorgerður meðal annars. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert