„Það sem er svo skemmtilegt við golfið er að það er bara hægt að koma kylfunni einhvern veginn fyrir framan sig og þetta bara reddast,“ segir Lovísa Ólafsdóttir kylfingur sem stendur nú fyrir fyrsta golfnámskeiðinu á Íslandi fyrir börn með fötlun. Námskeiðið heldur Lovísa í samstarfi við Golfklúbb Reykjavíkur, en hún æfði og keppti í golfi með klúbbnum í mörg ár.
Sumarið 2021 starfaði Lovísa í Reykjadal, sem eru sumarbúðir í Mosfellsdal fyrir börn og ungmenni með fötlun, og er hún núna liðveitandi fyrir 10 ára stelpu. Eftir að hafa unnið með börnum með fötlun áttaði Lovísa sig á því að framboð sumarnámskeiða fyrir þau væri af skornum skammti. Vill hún breyta því.
„Það er endalaust framboð af sumarnámskeiðum fyrir krakka sem ekki eru með fötlun. En fyrir þá krakka sem eru með fötlun þá geta þau farið í Reykjadal og frístund í Klettaskóla,“ segir Lovísa.
Námskeiðið fer fram í Básum í Grafarholti. Það hefst sunnudaginn 25. júní og stendur í fjórar vikur, til 16. júlí. Námskeiðið er opið börnum á aldrinum sjö til fimmtán ára en Lovísa segir að það sé þó einungis viðmið, vilji eldri eða yngri börn vera með verði það skoðað.
Skráning á námskeiðið er í gegnum tölvupóstinn lovisao2810@gmail.com, en einnig er hægt að senda Lovísu skilaboð á Facebook.