Glæpagengi selja Ísland sem áfangastað

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fullyrðir að hátt hlutfall hælisleitenda og flóttamanna sem komi til Evrópu séu á vegum erlendra glæpagengja sem selji Ísland sem áfangastað. Þegar gengið er á hann með þessa fullyrðingu segir hann þetta þegar upplýst af Evrópulögreglunni. Hann fullyrðir einnig að þetta fólk sem glæpagengin flytji til Evrópu sæti grimmum afarkostum og borgi fyrir með aleigunni.

Sigmundur Davíð er gestur Dagmála í dag og eitt aðalumræðuefnið er það sem hann kallar fullkomið stjórnleysi í málefnum innflytjenda til Íslands.

Umbúðastjórnmál krydduð yfirlýsingum umfram aðgerðir valdi því að ekki megi ræða þessi mál opinberlega og af fullri alvöru. Sigmundur fullyrðir að fleiri flóttamenn muni koma til Íslands en til Danmerkur á þessu ári. Þar er hann að tala um einstaklinga ekki hina margfrægu höfðatölu sem gjarnan er gripið til þegar við erum borin saman við aðrar þjóðir.

Fátt er meira rætt í stjórnmálum í Bretlandi heldur en vaxandi þungi flóttafólks til landsins og þangað hafa á þessu ári komið um sjö þúsund manns með bátum yfir Ermasundið. Á Íslandi er þessi tala komin á þriðja þúsund. Sigmundur bendir á þá staðreynd að Íslendingar séu rúmlega þrjú hundruð þúsund á með Bretar fylla sjötíu milljónir.

Hann vill skera upp málaflokkinn og styðja flóttafólk á nærsvæðum, sem hann kallar. Sem ráðherra heimsótti hann flóttamannabúðir og flestir sem þar dvöldu vildu betri aðbúnað en voru að bíða eftir að geta snúið til síns heima.

Hann segir að stefnu stjórnvalda hér á landi vera vatn á myllu ósvífinna glæpjagengja.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert