„Hvernig á að réttlæta þetta?“

Skjálfandafljót.
Skjálfandafljót. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Landeigendur í Köldukinn segja að samráð skorti við gerð á nýrri brú yfir Skjálf­andafljót á Norðurlandi. Áætlað er að brúin verði færð norðar og ljóst er að umferð muni aukast til muna í gegnum landið þeirra, en vegurinn í átt af fyrirhugaðri brú rennur beint í gegnum bóndabæi á svæðinu. Vegagerðin segir að vænta megi frekara samráðs. 

„Hvernig á að réttlæta þetta? Það er nú þegar vegur, vegstæði og brúarstæði til staðar,“ segir landeigandi í Kinn í samtali við mbl.is.

Núverandi brú yfir Skjálfandafljót er við Ófeigs­staði í Kinn. Sú brú er einbreið og frá 1. júní hefur brúin einungis verið opin fólksbílum sökum þess hversu illa farin hún er. Vegagerðin kynnti á árunum 2013-2014 þrjá veglínukosti og varð veglína 2 fyrir valinu. Sú myndi ná frá frá Torfunesi í Kinn norður fyrir Tjörn í Aðaldal. 

Brúin í Köldukinn.
Brúin í Köldukinn. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Betra umferðaröryggi með nýrri staðsetningu

Margrét Silja Þorkelsdóttir, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, segir að veglína 2 hafi orðið fyrir valinu vegna bætts umferðaröryggis og styttingu leiðar. 

Helstu ástæður fyrir því að Vegagerðin lagði til að veglína 2 yrði færð inn á skipulag voru stytting leiðar og bætt umferðaröryggi með almannahagsmuni í húfi, en leið 2 fól jafnframt í sér mesta arðsemi samkvæmt niðurstöðum frumdraga. Yfirvofandi flóðahætta við leið 1, sem er nyrst, útilokaði þann kost."

Segir skýra samstöðu vera meðal landeigenda

Baldvin Kr. Baldvinsson, bóndi á Torfunesi, segir í samtali við mbl.is mikinn samhug ríkja meðal landeigenda um að brúin eigi að vera áfram á sama stað. 

„Það er álit landeigenda hér á svæðinu að það eigi að byggja brú á sama stað. Það er engin glóra í öðru," og bætir við að ný brú þurfi að vera byggð sem fyrst, en fyrirhugað er hjá Vegagerðinni að ný brú verði tekin í gagnið árið 2028.

„Það skiptir máli fyrir fólkið á svæðinu, atvinnulífið og ferðaþjónustuna að brúin verði byggð sem fyrst á sama stað."

Rauða lína sýnir fyrirhugaða veglínu 2 og nýja brú. Örin …
Rauða lína sýnir fyrirhugaða veglínu 2 og nýja brú. Örin neðarlega hægra megin sýnir núverandi brú.

Verður mikil lífsbreyting fyrir íbúa á svæðinu

Annar landeigandi sem mbl.is ræddi við, en vildi ekki láta nafn síns getið, tekur undir orð Baldvins og segir að fundur hafði verið haldinn fyrir um tveimur árum en að ekkert hafi heyrst síðan þá. 

„Við landeigendurnir höfum ekki einu sinni verið spurð hvað okkur finnst um þessar áætlanir. Þetta er mjög undarlegt og skrýtið í ljósi þess hversu mikil lífsbreyting þetta verður fyrir okkur," segir landeigandinn og bætir við. 

„Hvernig á að réttlæta þetta? Það er nú þegar vegur, vegstæði og brúarstæði til staðar. Það þarf að laga eina 90 gráðu beygju á núverandi vegi en bæði peningalega og tímalega þá er það illskiljanlegt af hverju Vegagerðin ákveður að fara þessa leið. Þetta verður miklu meiri framkvæmd," segir landeigandinn.

Hann segir nauðsynlegt að fá nýja brú sem fyrst.

„Auðvitað viljum við ekki keyra yfir núverandi brú eins og hún er. Börnin okkar fara þarna daglega yfir á skólabíl og það þarf lítið til svo að eitthvað gerist. Brúin er mjó, vegriðið lágt og steypan að springa. Öryggisins vegna þá þarf að flýta framkvæmdum."

Aukið samráð í kortunum

Margrét Þorkelsdóttir segir að formlegt samráð hefjist við hvern og einn landeiganda þegar forhönnun hefst, en að samráð hafi þó verið við lýði síðustu ár. 

Vegagerðin hélt sameiginlegan kynningarfund árið 2019 með landeigendum sunnan Garðsnúps og segist hafa gert smávægilegar breytingar á veglínu 2 samkvæmt óskum landeigenda.

Vorið 2019 efndu þeir svo til samráðs með íbúum norðan Garðsnúps til að leiða veglínuna hjá viðkvæmum jarðmyndunum. Síðasti fundurinn var svo árið 2021 með landeigendum norðan Garðsnúps. Þetta kemur fram í svari hjá Margréti Þorkelsdóttur hjá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert