Háskóli unga fólksins hófst í dag og mun standa út vikuna. 250 nemendur taka þátt í ár, en Háskóli unga fólksins hefur verið haldinn árlega í næstum tvo áratugi. Gefst nemendum á aldrinum 12-14 ára færi á að velja milli 30 ólíkra námskeiða á öllum fræðasviðum Háskóla Íslands.
Meðal þess sem stendur til boða eru réttarvísindi, geðheilbrigði og tilfinningar, heimspeki og kvikmyndir, hin gleymdu stríð, samskipti og einelti, tölvuleikjahönnun, hönnun kappakstursbíla og skurðlækningar svo fátt eitt megi nefna. Þess fyrir utan fá krakkarnir að skemmta sér á milli kennslustunda en lýkur vikunni svo með hátíðlegri grillveislu á föstudaginn.
Fyrirkomulag kennslunnar í ár er með þeim hætti að kennsla fer aðallega fram fyrir hádegi og sækja nemendur tvö námskeið á dag að undanskildum miðvikudegi, en þá verja nemendur öllum deginum í tiltekinni námsgrein.
Námskeið sem kennd hafa verið við Háskóla unga fólksins skipta hundruðum og brautskráðir nemendur eru hátt í sex þúsund. Hefur hann því notið mikilla vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar seinustu ár og hlaut Háskóli unga fólksins einnig viðurkenningu fyrir vísindamiðlun á Vísindavöku Rannís seinasta haust. Markmið Háskóla unga fólksins er meðal annars að vekja áhuga ungs fólks á námi, vísindum og fræðum auk þess að veita þeim innsýn inn í það fjölbreytta námsúrval sem er í boði á háskólastigi.
Kristín Ása Einarsdóttir, skólastjóri Háskóla unga fólksins, hefur haft umsjón með verkefninu síðan árið 2009. Segir Kristín að verkefnið hafi heillað hana mikið og að þetta sé ávallt uppáhaldstími hennar á árinu þegar hún fær að setjast í skólastjórastólinn. „Það er ómetanlegt að fá að taka þátt í því að opna glugga að vísindunum fyrir ungu kynslóðirnar okkar,“ segir hún og bætir við að það sé einstök upplifun þegar háskólinn fyllist af börnum og unglingum sem eru svo lífsglöð, fróðleiksfús og áhugasöm. Þar að auki tekur Kristín fram að það séu mikil forréttindi að fá að vinna með þeim fjölmörgu frábæru vísindamiðlurum sem koma að kennslu Háskóla unga fólksins, sumir hverjir árum saman.
Umsjón og kennsla námskeiða sjá fræðimenn og framhaldsnemar við háskólann um en Kristín tekur fram að margir þeirra hafi sérstaklega gaman af því að kenna ungu kynslóðinni og fá nemendur sem þora að spyrja þá spjörunum úr. „Stundum fá kennararnir spurningar sem koma þeim í opna skjöldu og þeir þurfa virkilega að hugsa sig vel um hvernig hægt er að svara. Þannig að fyrir kennarana er þetta ferskt, einstakt og öðruvísi“, segir Kristín. Þar að auki er lögð mikil áhersla á að kennslan sé lífleg og geta því kennararnir farið út fyrir boxið og leyft sköpunargleðinni að leika lausum hala að sögn Kristínar.
Segir hún ýmsa nemendur hafa fundið sín eftirlætisfög í Háskóla unga fólksins og jafnvel lagt stund á nám í þeim fræðum sem þeir kynnast þar seinna á ævinni.
mbl.is ræddi við nokkra unga háskólanema sem munu spreyta sig á hinum ýmsu sviðum út vikuna. Bryndís Milla Matthíasdóttir er nemandi í Vesturbæjarskóla og nemandi Háskóla unga fólksins næstu daga. Spurð hvað hún sé spenntust fyrir að læra segir hún að íþróttafræðin og vísindin séu mest spennandi. Segir Bryndís að vísindin bjóði upp á mikla valmöguleika og sjálfa langar hana til þess að verða vísindamaður þegar hún verður eldri til að finna eitthvað upp, eins og bólusetningar. Horfði hún mikið á Ævar Þór þegar hún var yngri og þannig vaknaði áhugi hennar á vísindum.
Steinar Örn Vilhjálmsson nemandi í Fossvogsskóla var einnig mættur upp í Háskóla unga fólksins til að læra eitthvað nýtt en sjálfur hefur hann mikinn áhuga á íþróttum, og þá sérstaklega fótbolta og handbolta. Hann er spenntastur fyrir að læra að smíða kappakstursbíl. Spurður hvað hann langar að gera þegar hann er orðinn eldri segir Steinar að hann vilji helst gera eitthvað tengt íþróttum eins og að vera leikgreinandi í fótbolta eða atvinnumaður í annað hvort fótbolta eða handbolta.
mbl.is ræddi einnig við Vigdísi Arney Kolbeinsdóttur, nemanda í Langholtsskóla, en sjálf er hún spenntust fyrir því að læra tölvuleikjahönnun og taka þátt í tungumálaþemadeginum. Vigdís hefur áður tekið þátt í Háskóla unga fólksinsá seinasta ári, en þá lærði hún kínversk fræði og í framhaldi af því hefur hún verið að læra kínversku. Vill hún verða rithöfundur þegar hún er orðin stór en hún hefur gaman af því að gera eitthvað þar sem hún getur verið hugmyndarík.
Að lokum var spjallað við Óðinn Loga Leví Jónsson, nemanda í Sæmundarskóla. Hann, líkt og Steinar, er spenntastur fyrir að læra um hönnun kappakstursbíla, en þetta er fyrsta skiptið hans í Háskóla unga fólksins. Spurður hvort hann vissi hvað hann langaði að verða sagði Óðinn að hann hefði ekki hugmynd. Hefur Óðinn gaman af því að lita í frítíma sínum og heldur hann mest upp á myndmennt af þeim fögum sem hann er að læra í skólanum.