Með „veðursamviskubit“ fyrir austan

Skriðuklaustur í morgun.
Skriðuklaustur í morgun. Ljósmynd/Gunnarsstofnun

Veðurblíðan hefur verið mikil fyrir austan í dag, rétt eins og undanfarnar vikur, og hefur hæsti hitinn mælst 23,4 stig það sem af er degi á Hallormsstað.

Skriðuklaustur er í Fljótsdal í nágrenni við Hallormsstað og þar situr Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, fyrir svörum.

„Næstum því að verða ólíft“

„Það er allt farið að verða dálítið þurrt hér í náttúrunni. Það eru heldur fáir rigningardropar sem við fáum, þannig að gróður var kominn hér strax um síðustu mánaðamót miklu lengra en vanalega,“ segir Skúli Björn.

Skúli Björn Gunnarsson.
Skúli Björn Gunnarsson.

Hann bætir við að fleiri ferðamenn sjáist á svæðinu en venjulega, þar á meðal Íslendingar sem gista á tjaldsvæðum og í sumarhúsum. „Það þyngist bara straumurinn með hverjum deginum sem líður.“

Eruð þið farin að þrá meiri rigningu?

„Þetta er svolítið einhæft, eins og er hérna núna. Það er næstum því að verða ólíft og komið vel yfir 20 gráðurnar. Það er sennilega farið að nálgast 30 gráðurnar og glampandi sól og heiðskírt,“ svarar Skúli Björn og nefnir að stundum sé hlýrra á Skriðuklaustri en í Hallormsstað.

Nóg af sólarvörn

„Það er vissara að bera á sig sólarvörn áður en menn fara héðan út. Það er staðalbúnaður hjá starfsmönnum eins og er,“ bætir hann við, spurður hvort best sé að halda sig inni við.

„Það er búið að vera svona gott síðustu vikur á meðan það hefur verið skítviðri syðra. Maður er að verða kominn með veðursamviskubit gagnvart íbúum höfuðborgarsvæðisins,“ segir hann og hlær.

Stafræn leiðsögn

Spurður segir Skúli Björn aðsóknina í Skriðuklaustur það sem af er sumri vera meiri en í fyrra. Þar gæti haft eitthvað að segja ný miðlun varðandi rithöfundinn Gunnar Gunnarsson og verk hans þar sem gestir geta stuðst við stafræna leiðsögn í gegnum símann.

Hann segir fjölda gesta vera misjafnan frá degi til dags og fer hann mikið til eftir því hversu margar rútur og skemmtiferðaskip eru á ferðinni. Getur hann farið upp í nokkur hundruð manns á degi hverjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert