Moss hlýtur Michelin-stjörnu

Agnar Sverrisson er að vonum hæstánægður með Michelin-stjörnuna.
Agnar Sverrisson er að vonum hæstánægður með Michelin-stjörnuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veitingastaðurinn Moss í Bláa lóninu hefur hlotið hina eftirsóttu Michelin-stjörnu. Þetta var kunngjört við hátíðlega athöfn í Turku fyrir stundu.

„Þetta eru frábær tíðindi,“ segir Agnar Sverrisson, yfirkokkur á Moss, sem var viðstaddur athöfnina. „Michelin-stjarna hefur gríðarleg áhrif og það á ábyggilega snjóbolti eftir að fara af stað. Fleiri vilja koma til okkar og mögulega eyða meiri peningum. Á móti kemur auðvitað meiri pressa, að standa undir væntingum.“

Það hefur Agnar reynt á eigin skinni en hann varð árið 2010 fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Michelin-stjörnu fyrir veitingastað sinn Texture í Lundúnum. Og hélt henni í heilan áratug eða þangað til staðnum var lokað vegna heimsfaraldursins.

Agnar segir Moss leynt og ljóst hafa stefnt að því að hreppa stjörnu en Michelin-handbókin mælti með staðnum á síðasta ári sem gjarnan er litið á sem áfangasigur. „Þetta er búið að stjórna lífi manns í nokkurn tíma og eftirvæntingin var orðin mikil. Það er alls ekki heilbrigt fyrir sálina,“ segir hann hlæjandi. „Við töldum okkur eiga möguleika en auðvitað er maður aldrei öruggur; allir geta átt vondan dag á skrifstofunni. Þetta fer á sálina á manni vegna þess að maður hefur svo mikinn metnað til að gera vel.“

Koma bara og fara

Hann veit ekki fyrir víst hvenær útsendari Michelin heimsótti Moss en grunar að það hafi verið í upphafi ársins. „Þá kom gestur sem mér þótti líklegt að væri í þessum erindagjörðum. Hér áður gáfu þessir menn sig fram eftir matinn en þeir eru víst alveg hættir því núna. Alla vega vorum við ekki látin vita. Michelin hefur ekki sýnt Íslandi mikinn áhuga gegnum tíðina og manni skilst að hingað komi einn maður sem tekur út fjóra eða fimm staði og er svo bara farinn. Í London eru menn frá Michelin reglulega á ferðinni. Það er engin leið að spotta þá enda bóka þeir alltaf undir fölsku nafni; annars ættu þeir á hættu að þekkjast.

Er það ekki bara skemmtilegt?

„Nei, þetta er djöfulleg taktík,“ svarar hann hlæjandi. 

Agnar segir ljúft að vera viðstaddur formlega athöfn en þegar Texture hlaut stjörnuna var það bara kunngjört á netinu.

Það er óumdeilt afrek að hljóta Michelin-stjörnu en ekki síðra afrek að halda henni.

„Minnstu ekki á það ógrátandi. Maður kemur ekki til með að sofa mikið næsta árið af ótta við að missa stjörnuna. Það er mjög vond tilhugsun,“ segir hann sposkur.

Það upplifði hann ekki á Texture og vonar að það gerist ekki heldur á Moss.

Dill var fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi til að hljóta Michelin-stjörnu árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert