Óskar Andri Jónsson var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi í tengslum við sérstaklega hættulega líkamsárás, fyrir utan veitingarstaðinn Moe‘s bar í Seljahverfi í Reykjavík. Dregst gæsluvarðhald Óskars frá brotadegi frá fangelsisdóminum.
Þá var honum gert að greiða samtals 5 milljónir í miskabætur til brotaþola. Einnig var Óskari gert að greiða um þrjár milljónir í málsvarnarlaun, réttargæslu og útlagðan kostnað.
Óskar var ákærður fyrir að hafa sparkað í mann á fimmtugsaldri þar sem hann stóð utandyra efst í tröppum staðarins á annarri hæð þannig að hann féll niður 23 steinsteyptar tröppur.
Maðurinn hlaut höfuðkúpubrot, dreifðar blæðingar í og við heila og alvarlegan og varanlegan heilaskaða. Felur það bæði í sér hugræna skerðingu, máltruflanir og takmarkaðan málskilning.