Grímuverðlaunin verða nú haldin í þessari viku en Gunnar Helgason, leikstjóri og rithöfundur, segir skipuleggjendur hátíðarinnar ekki sýna barnaleikhúsi verðskuldaða athygli. „Það er bara svo erfitt fyrir okkur að skilja af hverju barnaleikhús nýtur ekki sömu virðingar og annað leikhús,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Ákvörðun vinningshafa íslensku sviðslistaverðlaunanna er í höndum valnefndar Grímunnar, en Gunnar gagnrýnir mætingu nefndarinnar á barnasýningar og segir að henni hafi verið ábótavant um árabil.
Greinir hann frá því að ellefu íslenskar barnasýningar hafi verið frumsýndar þetta leikár en aðeins fjórar þeirra farið inn á borð hjá Grímunni. Samkvæmt reglum Grímunnar séu það of fáar tilnefningar, en þær kveða á um að sjö tillögur að tilnefningum þurfi til að verðlaunaflokkur sé gildur. Stóð því til að leggja flokk bestu barnasýningarinnar niður í ár.
Þeim fyrirætlunum mótmæltu Gunnar og aðrir sem koma að barnasýningum harðlega. Eftir málamiðlun varð niðurstaðan að veita áfram verðlaunin fyrir bestu barnasýninguna en ekki tilnefna hinar sýningarnar sem lagt var til að fengu tilnefningu til verðlaunanna.
„Það var mjög erfitt að fá stjórnina og ákveðna meðlimi í valnefndinni til að beygja reglurnar,“ segir hann og bætir við: „En í reglunum segir líka að þau eigi að sjá allar sýningar, og þegar valnefndin brýtur reglurnar þá er erfitt fyrir hana að skýla sér á bak við þær.“
Vísar hann þá til mætingar nefndarinnar á barnasýningar landsins, en þónokkuð er um sýningar sem enginn nefndarmaður níu manna nefndarinnar sótti. Á meðal þeirra sýninga er ein af tillögunum að tilnefningum fyrir barnasýningu ársins, sýningin Lalli og töframaðurinn. Segir Gunnar mætingu nefndarinnar almennt miklu betri á sýningar ætlaðar eldri aldurshópum.
Hann greinir frá því að fæstir þeir sem setja upp barnasýningar sjái tilgang með því að skrá sýningar sínar til Grímuverðlaunanna ef enginn úr valnefnd mætti til að sjá þær. Það sé ekki forsvaranlegt að greiða hátt skráningargjald þegar þau sem velja vinningshafa verðlaunanna hafa ekki einu sinni séð sýninguna.
Að sögn Gunnars verði vandamálið leyst með betri mætingu valnefndar en nú sé loks komið á samtal um málefnið við Sviðslistasambandið. Þau muni taka málið betur fyrir að Grímuhátíð lokinni. Fagnar hann að málefninu sé sýnd athygli.
„Barnaleikhús hefur miklu meiri möguleika til að breyta lífi fólks, breyta lífi barnanna, en venjulegt leikhús. Þess vegna finnst mér þetta vera mikilvægasta efnið og það skipta máli hvernig komið er fram við þá sem sinna því í þessum listageira,“ segir Gunnar.