Endurbætur og uppbygging eru nú í undirbúningi á Staðarfelli í Dölum þar sem til stendur að opna þægindahótel á næsta ári.
Baldur Ingvarsson, sem stendur að fjárfestingarfélaginu V 69 ehf., keypti nú í ársbyrjun eignir á staðnum af ríkinu; það er gamla skólahúsið sem er fjögurra hæða bygging reist árið 1912. Sú bygging er um 750 fermetrar. Einnig fylgdu með í kaupum tvö íbúðarhús, byggð um 1970.
„Á Staðarfelli og í Dölunum eru miklir möguleikar til sóknar og uppbyggingar. Vesturland og Vestfirðir eiga mikið inni sem ferðamannasvæði með einstakan söguarf og náttúrufegurð,“ segir Baldur.
Frá því um 1980 og fram á síðustu ár var á Staðarfelli meðferðarstofnun á vegum SÁÁ. Þar áður var á Staðarfelli húsmæðraskóli um áratugaskeið.
Baldur segir stefnt að því að koma upp á Staðarfelli 50 herbergja hóteli. Húsakostur þar hafi verið kominn á tíma og mörgu þurfi að breyta til að svara kröfum nútímans. Að útbúa gott hótel á þessum merka stað sé talsverð framkvæmd sem kosti nokkur hundruð milljónir króna.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.