Vill dönsku leiðina í málum flóttafólks

Sigmundur Davíð vill að Íslendingar taki sér Dani til fyrirmyndar þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda. Hann segir Dani hafa áttað sig á að sterkt velferðarkerfi og opin landamæri geti ekki þrifist hlið við hlið.

Sigmundur segir að danskir kratar hafi tekið upp þá stefnu að engir flóttamenn sæki þar um hæli. Það þýðir þó ekki að Danir vilji ekki taka á móti flóttafólki. Þeirra stefna sé að bjóða til landsins fólki í neyð sem ekki eigi afturkvæmt til síns heima.

Hann viðurkennir að þær tillögur sem Miðflokkurinn hefur lagt fram í málaflokknum séu úr smiðju danskra krata sem hafi eftir mikla íhugun breytt algerlega um stefnu í þessum málum.

Hann segir því miður að sumir hér á landi eigi erfitt með að nýta sér reynslu annarra og þurfi að gera öll mistökin í bókinni. Hann segir Ísland langt á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að stefnu og aðgerðum í málefnum flóttafólks. Að sama skapi óttast hann að þegar tekið verði á málinu verði það of seint.

Sigmundur Davíð er gestur Dagmála í dag. Þátturinn í heild sinni er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert