900 milljarðar og ný Hvalfjarðargöng

Ráðherra kynnti þingsályktunartillöguna í dag.
Ráðherra kynnti þingsályktunartillöguna í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Þingsályktunartillaga innviðaráðherra um nýja samgönguáætlun hefur nú litið dagsins ljós. Meðal þess sem fjallað er um í áætluninni er forgangsröðun um uppbyggingu jarðganga og uppbygging á innanlandsflugvöllum.

Fram kemur einnig að rúmlega 900 milljörðum króna verði varið í samgönguframkvæmdir næstu fimmtán árin.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti í dag þingsályktunartillöguna á Hótel Nordica. Í kjölfar fundarins varð tillagan aðgengileg í samráðsgátt og verður hægt að senda inn umsögn eða ábendingar vegna hennar til og með 31. júlí næstkomandi. Tillagan verður tekin fyrir á Alþingi í haust.

Í þingsályktunartillögunni, sem nær frá árinu 2024 til 2038, er farið um víðan völl. Til dæmis er þar reifuð jarðgangaáætlun til næstu þrjátíu ára og farið yfir forgangsröðun fjórtán ganga. Forgangsröðunin var unnin eftir að heildstærð greining á jarðgangakostum hafði verið framkvæmd. Þá hefur Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri einnig unnið mat á arðsemi, umferðaröryggi og tengingu svæða ásamt fleiru og var Vegagerðin vitaskuld með í áætlanagerð.

Ráðherra fór yfir kjarna áætlunarinnar.
Ráðherra fór yfir kjarna áætlunarinnar. Skjáskot

 Lögð er til eftirfarandi forgangsröðun jarðganga:

  1. Fjarðarheiðargöng
  2. Siglufjarðarskarðsgöng
  3. Hvalfjarðargöng 2
  4. Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur
  5. Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
  6. Breiðadalsleggur, breikkun
  7. Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng
  8. Miklidalur og Hálfdán
  9. Klettsháls
  10. Öxnadalsheiði

Tekið er fram að lagt sé til að áætlunin sé endurskoðuð samhliða samgönguáætlun og verði þá eftirfarandi göng einnig til skoðunar:

-          Reynisfjall

-          Lónsheiði

-          Hellisheiði eystri

-          Berufjarðargöng og Breiðdalsheiðargöng

Jarðgöngin sem eru í efstu sætum.
Jarðgöngin sem eru í efstu sætum. Skjáskot

Uppbygging flugvalla með varaflugvallagjaldi

Þá eru fjárfestingar í innanlandsflugvallakerfinu ræddar og eru þær sagðar miðast fyrst og fremst við það að uppfylla staðalkröfur um öryggi, viðhald mannvirkja og í einhverjum tilfellum nýframkvæmdir.

Með varaflugvallagjaldi á að vinna að uppbyggingu Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla. Þá verði samhliða unnið að því að minni lendingarstaðir geti þjónað hlutverki sínu gagnvart sjúkra- og almannaflugi. Þá þurfi einnig að undirbúa flugvellina fyrir orkuskipti í flugi en von sé á fyrstu kennsluflugvélunum sem nota litlar færanlegar hleðslustöðvar hingað til lands árið 2024. Þá kemur fram að fyrsta vetnisknúna farþegaflugvélin hafi farið á loft í mars árið 2023.

Í tillögunni kemur eftirfarandi fram:

Helstu framkvæmdir:

Reykjavíkurflugvöllur, flugstöð.

Lagt er til að fara í endurbyggingu á flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að reisa flugstöð á sama reit og núverandi flugstöð. Fyrirhugað er að byggingin verði einföld stálgrindarbygging. Áætlað er að árið 2024 verði unnin þarfagreining með flugrekendum og flugafgreiðsluaðilum ásamt hönnunarundirbúningi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdatími gæti verið um 24 mánuðir.

Egilsstaðaflugvöllur, akbraut.

Lagt til að gerð verði akbraut meðfram flugbraut Egilsstaðaflugvallar auk þess sem flughlað verður stækkað. Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið í áföngum. Verkefnið er lykilþáttur í því að efla hlutverk Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvöllur millilandaflugs.

Akureyrarflugvöllur, flugstöð.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli klárist árið 2024.

Þá er greint frá því að uppsöfnuð viðhaldsþörf sem nemur um sextán milljörðum króna sé til staðar á innanlandsflugvöllunum.

Frekari upplýsingar, samráðsgátt og þingsályktunartillöguna í heild má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert